139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

rannsókn á starfsemi fjármálafyrirtækja.

38. mál
[17:15]
Horfa

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um rannsókn á starfsemi fjármálafyrirtækja á tímabilinu frá október 2008 til ársloka 2009.

Ég mun ekki hafa mjög mörg orð um þetta mál enda engin ástæða til, mér finnst málið skýra sig sjálft og vera svo sjálfsagt að við ættum að klára þetta hratt og vel. Ástæðan er mjög einföld. Við bankahrunið gekk eðli málsins samkvæmt á ýmsu. Margir höfðu þá skoðun og af ástæðu að það mundi koma upp tímabil þar sem mjög mikil hætta væri á spillingu og misnotkun. Voru menn ekki síst að vísa til þess að bæði mætti færa rök fyrir því að það hefði verið ákveðið óðagot í gangi og eðlilega þegar jafnmiklar hamfarir voru og raun bar vitni, og ekki síður að bankastofnanirnar voru, alla vega í fyrstu, ansi munaðarlausar ef þannig má að orði komast. Ekki var skýrt hvar eignaraðildin var, hverjir stýrðu og hver þróunin yrði og við höfum horft upp á það að ýmis fyrirgreiðsla sem átti sér stað í bönkunum á þessu tímabili er vægast sagt umdeild svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Sumt hefur komist í hámæli, sumt hefur verið ansi mikið í fjölmiðlum. Til dæmis bað ég um að fyrirgreiðsla Arion banka á Högum og sömuleiðis Samskipum á sínum tíma yrði skoðuð sérstaklega í viðskiptanefnd. Við fengum þar kynningu á því þó svo að nefndin hefði ekki tækifæri til að rannsaka það mál í kjölinn. Hins vegar voru það bara tvö dæmi af fjölmörgum. Væntanlega komust þau mál í hámæli vegna þess að þar voru eigendur aðilar sem voru mikið í fjölmiðlum og áberandi menn í þjóðlífinu. Síðan hafa verið fréttir í hinum ýmsu fjölmiðlum. Ég held að í nokkurn veginn flestum ef ekki öllum prentmiðlunum, frá DV, Viðskiptablaðinu, Morgunblaðinu og fleirum, hafi verið velt upp hinum ýmsu málum sem svo vægt sé til orða tekið eru mál sem orka mjög tvímælis. Og að mínu áliti er augljóst að a.m.k. hafi ekki verið gætt jafnræðis á milli aðila ef marka má þær fregnir sem eru í fjölmiðlum og hafa ekki verið bornar til baka.

Til að koma í veg fyrir slíkt setti þingið af stað nefnd, rannsóknarnefnd sem tók til starfa í mars á þessu ári og átti að byrja að skoða hvað gerðist í bönkunum frá ársbyrjun þess árs. En þetta tímabil, frá október 2008 til loka árs 2009, er tímabil þar sem enginn var að fylgjast með verklagi og ákvarðanatöku íslenskra fjármálafyrirtækja frá neyðarlögunum.

Ég held að hér sé í rauninni um tvennt að ræða, annars vegar að skoða þetta ekki, að rannsaka þetta ekki og vera, ekki næstu mánuðina eða missiri heldur næstu árin og áratugina haldin alls konar tortryggni vegna þess að menn telja, kannski með réttu, við vitum það ekki, að einhverjir aðilar hafi fengið óeðlilega fyrirgreiðslu og þar af leiðandi eignir sem öðrum hafi ekki staðið til boða. Við skulum alveg átta okkur á því, virðulegi forseti, að þegar um svona afskriftir í bönkunum er að ræða þá eru þetta eignatilfærslur. Það er fullkomlega ábyrgðarlaust af hálfu þingsins að fylgjast ekki með þessu og skoða þetta ekki sérstaklega þegar jafnmörg dæmi hafa komið upp og raun ber vitni. Besta leiðin til að eyða tortryggninni og grunsemdum um óeðlileg vinnubrögð innan fjármálastofnananna er að samþykkja rannsókn eins og þessa. Það sem nefndinni er ætlað að gera og er nefnt í 1. gr. frumvarpsins er eftirfarandi:

a. afla upplýsinga um verklag og ákvarðanir hjá fjármálafyrirtækjum við sölu fyrirtækja, fjárhagslega endurskipulagningu þeirra, afskriftir skulda og almenna fyrirgreiðslu til handa fyrirtækjum og eigendum fyrirtækja sem eru í fjárhagsvandræðum,

b. meta hvort farið hafi verið eftir tilmælum stjórnvalda og samkeppnisyfirvalda og einnig hvort hlutlægni og jafnræði hafi verið höfð að leiðarljósi við ákvarðanatöku,

c. gera ráðstafanir til þess að hlutaðeigandi yfirvöld fjalli um mál þar sem grunur vaknar við rannsókn nefndarinnar um óeðlilega starfshætti, og

d. skila til Alþingis skýrslu með rökstuddum niðurstöðum rannsóknar sinnar. Skal skýrslan innihalda sundurliðaða greiningu á afskriftum skulda og almennri fyrirgreiðslu til handa fyrirtækjum og einstaklingum sem ekki teljast eiga rót sína að rekja til öflunar og reksturs heimilis.

Ég vek athygli á því, virðulegi forseti, að hér er gert ráð fyrir að skýrslan innihaldi sundurliðaða greiningu á afskriftum skulda. Það þýðir með öðrum orðum að menn hafi það opið og uppi á borðum hvaða fyrirtæki og eigendur fyrirtækja hafa fengið afskriftir.

Rökin gegn þessu eru þau að þetta muni valda mikilli úlfúð og óánægju í þjóðfélaginu þegar menn sjái hverjir fá afskriftir og hverjir ekki. En hinn valkosturinn, virðulegi forseti, er einfaldlega sá að hér fari menn að skoða ársreikninga, því að það verður auðvitað gert, sem er skylda að birta einu og hálfu ári í síðasta lagi, ef ég man rétt, eftir að árið er liðið, og fari að tína það fram hverjir hafa fengið afskriftir og hverjir ekki. Síðan mun umræðan í þjóðfélaginu, og sú umræða mun vara í mörg ár, verða deila um það hvort rétt hafi verið staðið að verki eða ekki.

Staðan sem er uppi núna, virðulegi forseti, býður upp á tortryggni, hún býður upp á deilur og úlfúð. Ef við ætlum að koma í veg fyrir það, nóg er nú samt, verðum við að setja þetta í einhvern farveg. Þetta frumvarp er liður í því. Þetta er ekki hugsað til þess eins og sumir segja og spyrja: Erum við þá ekki endalaust að velta okkur í fortíðinni og getum ekki hugað að framtíðinni? Ég held mál eins og þetta sé grunnur að framtíðinni, grunnurinn að því að við getum verið örugg með að hér séu réttar leikreglur í gangi og menn geti gengið að því sem vísu að allir sitji við sama borð.

Við sjáum það í umræðunni núna í hruninu að það sem er ekki síst til umræðu gerðist ekki í hruninu eða rétt fyrir hrunið, þetta eru oftar en ekki mál sem eru búin að liggja eða vera í umræðu svo árum og jafnvel áratugum skiptir, ekki mjög áberandi en það var ákveðin tortryggni þegar viðkomandi mál komu upp og síðan blossaði hún upp við bankahrunið.

Ég spyr: Hefði ekki verið betra að skoða þau mál sem menn vilja skoða núna langt aftur í tímann, hefði ekki verið betra ef menn hefðu skoðað þau strax þá? Hefði ekki verið betra ef þingið hefði strax og grunsemdir vöknuðu um einhverja óeðlilega hluti sett af stað rannsókn þannig að þau mál væru út af borðinu? Svar mitt er einfalt: Að sjálfsögðu. Og þannig tel ég að þingið eigi að vinna. Ég tel að þingið eigi að vinna þannig og það eigi að vera sjálfsagt mál, ekki stórmál, að menn rannsaki og skoði hluti þegar upp koma málefnalegar röksemdir fyrir því að þess sé þörf. Það muni gera það að verkum að við sjáum fram á meiri einingu í þjóðfélaginu, meira traust í þjóðfélaginu, þar sem menn muni vita að ef uppi er rökstuddur grunur um að hlutirnir hafi ekki verið eins og þeir áttu að vera séu þeir rannsakaðir og komist að niðurstöðu.

Virðulegi forseti. Í örstuttu máli er þetta svona: Hér er um 14 mánaða tímabil að ræða þar sem var allra handa fyrirgreiðsla í bönkunum. Það voru ekki verklagsreglur. Það var ekki skýrt hverjir áttu bankana. Það voru miklar mannabreytingar. Það hafa komið fréttir af alls konar fyrirgreiðslu sem svo sannarlega kalla á það að málið verði skoðað betur. Þetta er ekki rannsókn af þeirri stærðargráðu sem bankahrunsrannsóknin var eða neitt slíkt. Þetta er afmarkað og tiltölulega einfalt mál sem á ekki að kalla á mikil fjárútlát en er nauðsynlegt til að við vitum að farið sé eftir réttum leikreglum og fólki sé ekki mismunað. Það er eðli málsins samkvæmt, og ég ætla ekki að fara yfir þær röksemdir aftur, nauðsynlegt til að byggja hér upp það þjóðfélag sem við viljum sjá, þar sem menn geta verið öruggir um að allir sitji við sama borð og sömu reglur gildi fyrir alla. Til að svo megi verða verðum við að samþykkja þetta frumvarp.

Ég vona, virðulegi forseti, að málið dagi ekki uppi í nefndinni eins og í vor. Ég heiti á stjórnarliða, sem margir hverjir eru á þessu frumvarpi og enn aðrir sem eru ekki flutningsmenn frumvarpsins hafa lýst yfir áhuga á því að klára þetta mál, ég heiti á meiri hlutann að ganga hratt til verka og afgreiða þetta mál út úr nefndinni þannig að við getum greitt atkvæði um það í þinginu.