139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

19. mál
[17:55]
Horfa

Flm. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli í dagslok, áður en við höldum til fundar í Þjóðmenningarhúsinu, fyrir litlu en þörfu máli, sem ég held að sé óþarfi að fjölyrða mikið um, enda hefur það tvívegis verið lagt fram áður, bæði á 137. og 138. þingi. En þó að málið sé lítið þá er það þarft og á sannarlega erindi einmitt núna í þeim verkefnum sem við erum í því að það felur í sér að fjarlægja það fortakslausa bann sem er í gildandi lögum við því að lífeyrissjóðirnir í landinu, sjóðir almennings, geti átt íbúðarhúsnæði eða félög sem eiga, reka og leigja slíkt húsnæði.

Það er þekkt í mörgum löndum í kringum okkur að lífeyrissjóðirnir nýta þar eign á íbúðarhúsnæði sem hluta af sínum fjárfestingarkostum. Það hefur hjálpað til við að þróa og efla leigumarkað og draga úr sveiflum á fasteignamarkaði, sérstaklega í löndum þar sem lífeyrissjóðir eru mjög umsvifamiklir í þeim efnum eins og í Þýskalandi, og koma þannig í veg fyrir verstu bólurnar sem verða á þeim eignamarkaði. Auðvitað er það líka þannig að fjárfesting í íbúðarhúsnæði er býsna örugg og góð langtímafjárfesting. Þegar við sjáum hversu illa lífeyrissjóðirnir hafa verið leiknir af ýmsum þeim fjárfestingum sem þeir hafa ráðist í á undanförnum árum í ýmiss konar hlutabréfa- og skuldabréfaviðskiptum þá er ósköp eðlilegt að við horfum til þess hvort ekki sé rétt að heimila sjóðunum að verja hluta af fjármunum sínum til að fjárfesta í íbúðarhúsnæði og ekki síst núna þegar við blasir að á næstu missirum muni sjóðirnir a.m.k. í einhverjum mæli þurfa að leysa til sín eignir frá fólki sem ekki hefur getað staðið undir þeim lánum sem það hefur fengið hjá sjóðunum til kaupa á fasteignum. Þess vegna er ekki síður mikilvægt að sjóðirnir hafi heimild til að eiga slíkt húsnæði eða leigja það út ef þeir svo kjósa.

Hér er ekki gert ráð fyrir að lífeyrissjóðunum sé sagt fyrir verkum í þessu efni heldur er einvörðungu verið að opna þeim heimild til að hafa íbúðarhúsnæði sem einn af þeim fjárfestingarkostum sem þeir geti nýtt. Eðlilegt væri, þó að ekki sé gert ráð fyrir því í frumvarpstextanum sjálfum, að einhver mörk yrðu sett á hve stóran hluta sjóðsins mætti nota til fjárfestinga af þessu tagi, eins og gildir um aðra þá fjárfestingarkosti sem sjóðunum eru heimilir. Ég tel eðlilegt að það verði tekið til umfjöllunar í nefnd.

Ég þakka þær ágætu viðtökur sem málið fékk í umræðum á fyrri þingum og sömuleiðis í umsögnum, m.a. frá Landssambandi lífeyrissjóðanna, og vona og vænti þess að takast megi samstaða um að afgreiða það einfalda en sjálfsagða mál á þessu þingi að lífeyrissjóðir landsmanna megi fjárfesta í íbúðarhúsnæði til að leigja og hafa af því tekjur, þ.e. að fjárfesta í varanlegum traustum fasteignum og þjóna um leið markmiðum um að efla hér og styrkja og fjölga úrræðum í húsnæðismálum.