139. löggjafarþing — 9. fundur,  13. okt. 2010.

störf þingsins.

[14:31]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Ég hef orðið þess heiðurs aðnjótandi að fá að sitja fjóra fundi með fimm ráðherrum á um einni viku. Ég hef þar af leiðandi hitt um 20 ráðherra á einni viku. Það er í sjálfu sér, held ég, engum hollt að hitta 20 ráðherra á einni viku. Til að upplýsa þingið aðeins um stöðu mála í því er skuldavandi heimilanna brýnasta efnahagsváin sem við stöndum frammi fyrir í dag. Á þessum fundum hafa komið fram ýmis sjónarmið og þau eru ekki öll eins. Ég vil að það komi skýrt fram að á flestum þeim heimilum sem eru í skuldavanda eru fyrirvinnur, það er ekki atvinnumál sem vefjast fyrir því að þau heimili geti greitt skuldir sínar. Það eru of háar skuldir sem valda því að það er ekki hægt að greiða þær niður. (Gripið fram í.)

Það hafa komið fram þrjú frumvörp, eitt frá félags- og tryggingamálaráðherra og tvö frá dómsmálaráðherra, sem eru á leið inn í þingið sem hjálpa töluvert. En tvö grundvallaratriði standa út af og gegn þeim stendur meiri hluti þessara fimm ráðherra, þ.e. þeir standa gegn því að farið verið út í almenna leiðréttingu á þeim forsendubresti sem hefur átt sér stað og annaðhvort ljá ekki máls eða eru andsnúin því að farið verði af stað í alvöruvinnu við að afnema verðtryggingu almennt og það umhverfi sem verðtryggingin hefur búið til á Íslandi. Þangað til að tekið verður á þessum tveimur atriðum er öll þessi vinna, sérstaklega hvað varðar stóra skuldastabbann, ákaflega lítils virði og mun ekki skila því sem til þarf. Það hefur verið reynt í eitt og hálft ár að leysa þetta mál með sértækum leiðum. Þær eru fullreyndar, það verður að hugsa hlutina og framkvæma þá öðruvísi. Ég vona svo sannarlega að í dag eða á morgun (Forseti hringir.) snúist fólki hugur með þetta. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)