139. löggjafarþing — 10. fundur,  14. okt. 2010.

stuðningur ráðherra við fjárlagafrumvarpið og atvinnusköpun.

[10:47]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það er ánægjulegt að heyra að hún styður byggingu álvers í Helguvík því að annað hefur komið fram undanfarið.

Varðandi hin atriðin, hvernig eigi að skapa atvinnu, vil ég benda hæstv. ráðherra á að hún er í ríkisstjórn og það er hæstv. ríkisstjórn sem skapar atvinnu í dag en ekki Sjálfstæðisflokkurinn. Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt fram tillögu um að draga allar skattahækkanir ríkisstjórnarinnar til baka og skattleggja séreignarsparnað landsmanna í staðinn. Þannig mætti skapa atvinnu vegna þess að allar skattahækkanir ríkisstjórnarinnar miða að því að drepa niður atvinnu. Það er örugglega ekki meiningin en það kemur þannig út.

Hækkun á tryggingagjaldi er ekkert annað en skattur á atvinnu. Hækkun á fjámagnstekjuskatti og hækkun á skatti á hagnað fyrirtækja verður til þess að drepa niður vilja til þess að fjárfesta í fyrirtækjum og veita þeim lán, og drepa niður innlendan sparnað. (Forseti hringir.) Sjálfstæðisflokkurinn hefur sannarlega komið með tillögur til að auka atvinnu.