139. löggjafarþing — 11. fundur,  14. okt. 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga.

55. mál
[14:23]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Eins og kom fram í máli hv. þingmanns var ekki um beina spurningu að ræða heldur tók hún undir það sem við höfum augljóslega bæði áhyggjur af, sem er það að nýr flöskuháls gæti myndast og þá var náttúrlega til lítils að fara í þessa vegferð.

Ég er ekki fastur nefndarmaður í hv. félags- og tryggingamálanefnd en met það svo út frá reynslu minni að hæstv. ráðherrar hafi í einlægni talið að þeir væru búnir að leysa öll mál. Það hafa þeir oftsinnis sagt hér en sú var ekki raunin. Þar sem við erum hér, sem er vel, að velta því upp hvernig við getum breytt vinnubrögðum á þingi vil ég leyfa mér að leggja það til að hv. þingnefnd fái þessa gesti, og sérstaklega fulltrúa umboðsmanns skuldara og sýslumenn, fljótlega á sinn fund til að fá það frá fyrstu hendi hvernig gengur svo að það verði ekki þannig að eftir einhverjar vikur, ég tala nú ekki um mánuði, komi í fjölmiðlum fréttir um að þetta úrræði hafi ekki virkað sem skyldi. Ég held að það falli ágætlega undir það eftirlit sem þingið á að hafa með framkvæmdarvaldinu. Það er sjálfsagt að þingið kanni það og meti sjálfstætt hvernig gengur að framfylgja þeim lögum sem þingið hefur samþykkt.

Ég veit að hv. formaður nefndarinnar er allur af vilja gerður og legg því til að fylgst verði sérstaklega með þessu máli þannig að við lendum ekki í sömu vandræðum og við höfum lent í með þau úrræði sem hafa verið samþykkt á undanförnum mánuðum og (Forseti hringir.) missirum hér í þinginu.