139. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2010.

stækkun Reykjanesvirkjunar.

[15:17]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Mig skortir alls ekki vilja til að hreyfa við atvinnumálum suður með sjó enda tel ég okkur hafa sýnt það ágætlega að undanförnu. Það sem skiptir máli í þessu er að menn nái saman um verkefnin og standi hvorki í þessum sal né í fjölmiðlum og bendi hver á annan heldur setjist að sama borði og vinni allir að sama markmiði.

Ég tel að við séum að ná slíkum árangri í þessum efnum, við munum sjá árangur innan tíðar. Varðandi þetta einstaka mál ítreka ég enn og aftur að það er ekki mitt að grípa inn í leyfisveitingaferlið sem er síðan kæranlegt til þeirrar sem hér stendur vegna þess að þá væri ég einfaldlega orðin vanhæf og það er ekki staða sem ég tel heldur að verði málinu til neins gagns.