139. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2010.

viðbrögð fjölmiðla við athugasemdum rannsóknarnefndar Alþingis.

35. mál
[17:27]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir svörin og um leið þeim fjölmiðlum sem brugðist hafa við á skömmum tíma til að reyna að svara þessari spurningu.

Öðruvísi mér áður brá, að ég geti tekið undir með þeim hv. þingmanni sem var í ræðustól áðan, Merði Árnasyni. Ég held að það sé hárrétt sem hann setur fram varðandi Ríkisútvarpið og hlutverk þess á auglýsingamarkaði. Ég hef ekki dregið dul á að ég tel að endurskoða verði hlutverk Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði, það hefur ekki alltaf fengið þann hljómgrunn sem ég hefði óskað, en ég tel að það sé eitt af því sem við verðum að skoða varðandi Ríkisútvarpið. Ríkisútvarpið hefur almennt séð staðið sig vel en það getur staðið sig enn betur. Við gerum ríkar kröfur til þess varðandi almannaþjónustuna og menningarhlutverkið og ég tel það einboðið fyrst hæstv. ráðherra hefur upplýst að verið sé að endurskoða þjónustusamninginn að menn fari að forgangsraða í Ríkisútvarpinu í þágu þess hlutverks sem við viljum öll að það gegni, þ.e. almanna- og menningarþjónustu. Það þýðir ekki fyrir þá ágætu stofnun að vilja gera allt fyrir alla þannig að ekki verði neitt úr neinu. Menn verða að þora að forgangsraða í þágu almannaþjónustu og menningarhlutverks, að ógleymdu öryggishlutverkinu sem allir gera kröfu um. Annað á Ríkisútvarpið í raun ekki að gera, þannig að Ríkisútvarpið, eins og allar aðrar ríkisstofnanir sem standa nú frammi fyrir erfiðum ákvörðunum, verður að þora að forgangsraða innan sinna raða. Ég trúi og treysti þeim sem þar starfa og stjórna til að fara í það í samvinnu og samráði við mennta- og menningarmálaráðuneytið. Ég held einmitt að það sé ekki síst brýnt að sú ágæta stofnun rýni vel í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og skoði hvað betur hefði mátt fara.