139. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2010.

aðgengi að bekkjarskólum á framhaldsskólastigi.

37. mál
[17:48]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Nú er það svo að af 35 framhaldsskólum landsins eru eingöngu sex starfræktir með bekkjarfyrirkomulagi, Menntaskólinn á Akureyri, Menntaskólinn á Laugarvatni, Menntaskólinn í Reykjavík, Kvennaskólinn í Reykjavík, Menntaskólinn við Sund og Verzlunarskóli Íslands — og við þetta má bæta að þeir eru allir á suðvesturhorninu nema Menntaskólinn á Akureyri. Allir aðrir framhaldsskólar starfa samkvæmt einhverri útfærslu af áfangakerfi. Það er því ekki hægt annað en — eingöngu úr frá þessum hlutföllum — að draga þá ályktun að nemendur eigi ekki alveg jafnt val um bekkjarskóla og áfangaskóla þegar kemur að því að innritast í framhaldsskóla, hreinlega út af því að áfangaskólarnir eru mun fleiri. Bekkjarskólarnir flestir bjóða að mestu leyti upp á bóknám, í áfangaskólunum hafa verið fjölbreyttari námsleiðir þannig að þar má líka finna ákveðinn mun.

Bekkjarskólarnir hafa raunar ekki allir notið sömu vinsælda en þrír af þeim eru gamalgrónir og miðsvæðis í höfuðborginni. Þeir hafa verið mjög þaulsetnir um árabil. Sama má raunar segja um einn gamalgróinn áfangaskóla á svipuðum stað, sem er Menntaskólinn í Hamrahlíð, og í raun er dálítið erfitt að spá fyrir um hvaða skóli verður vinsælastur hverju sinni.

Af því að hv. þingmaður gerir innritunarreglurnar nú síðast sérstaklega að umfjöllunarefni, og hvernig þær ríma við þetta, langar mig í fyrsta lagi að segja: Við erum með talsvert færri bekkjarskóla en áfangaskóla, sem gerir það að verkum að við erum alltaf með ákveðið misvægi þar á milli. Eins og hv. þingmaður þekkir kvenna best var sett á fræðsluskylda, þ.e. að öllum nemendum undir 18 ára aldri skyldi, í nýjum lögum um framhaldsskóla árið 2008, tryggð skólavist. Við sjáum líka að nú sækja jafnvel 97% úr hverjum árgangi í 10. bekk um skólavist í framhaldsskólum. Það var mat mitt og þeirra sem með mér starfa í ráðuneytinu að það skipti máli að reyna að setja þar á einhvern nærsvæðisforgang. Ég vil hins vegar nefna það að nærsvæðin hafa í raun verið í gildi, líka í Hafnarfirði, líka í Kópavogi og um land allt, alls staðar nema í Reykjavík, þ.e. að skólarnir hafa verið að taka inn mikinn meiri hluta af sínu nærsvæði nema í Reykjavík þar sem þessi hlutföll snúast við og nemendur fara frekar á milli hverfa.

Framhaldsskólarnir hafa afgreitt umsóknir sínar eftir ýmsum forsendum. Það getur verið um að ræða einkunnir í grunnskóla en þeir geta ákveðið aðrar forsendur. Þeir geta t.d. ákveðið að þeir vilji leggja áherslu á árangur í list- og verknámi eða ástundun. Þeir geta ákveðið að leggja áherslu á búsetu þannig að þeir sem uppfylla skilyrðin standa best og svo kemur það koll af kolli.

Eftir innritun haustið 2009 settum við á laggirnar samráðshóp og skoðuðum hvort þörf væri á meiri stýringu við innritun. Niðurstaðan af þeirri vinnu varð að 45% plássanna voru eyrnamerkt nemendum af nærsvæðinu þannig að ekki er verið að taka upp gömlu hverfisskólana en það er verið að setja á ákveðinn hverfiskvóta. Þetta varðaði kannski sérstaklega skóla hér í Reykjavík sem sumir hverjir höfðu verið að taka undir þessum kvóta en utan af landi hafa allt frá 80 og upp í 100% nemenda komið af nærsvæðinu. Það vildum við gera og töldum til þess málefnaleg rök til að skýra betur að nemendur gætu sótt þann rétt til skólavistar sem þeir núna eiga að lögum, sem ég er mjög sátt við og finnst gott skref að þessi fræðsluskylda hafi verið sett á. Markmiðið með henni er að allir nemendur fái nám við hæfi í fullgildum framhaldsskóla og það er það markmið sem við erum að reyna að ná. Nemendur gátu sett skóla í fyrsta og annað val og niðurstöðurnar úr valinu benda til þess að 82% nemenda hafi fengið skólann sem þeir settu í fyrsta val og 95% fengu skóla eftir fyrsta eða öðru vali.

Eftir stóðu 5% sem fengu ekki eftir fyrsta og öðru vali. Auðvitað vildi ég að ég gæti sagt að 100% nemenda hefðu fengið inni í öðrum hvorum af þeim tveimur skólum sem þeir hefðu valið. En við munum nota tækifærið og fara aftur yfir innritunarreglurnar, hvernig þær hafa gefist, hvort þetta sé rétta hlutfallið, hvort eitthvað annað eigi að koma inn í skilyrðin. Ég legg líka áherslu á að við unnum þetta í samráði við grunnskólana, fulltrúa skólastjóra, og ég vonast til þess að við námsmat og inntöku í framtíðinni sjáum við víðfeðmari mælikvarða en eingöngu einkunnir á blaði, jafnvel að mappa fylgi hverjum nemanda úr grunnskóla sem hægt sé að nota þegar innritun fer fram þannig að nemendur séu metnir á víðfeðmari grunni en bara einföldum einkunnum.

Ég get fullyrt að ég held að við höfum reynt að vinna þetta eins faglega og hægt er en hins vegar liggur það fyrir að sumir framhaldsskólar eru vinsælli en aðrir (Forseti hringir.) og það er erfitt að tala um jafnræði þegar ekki komast allir að þar sem þeir vilja.