139. löggjafarþing — 15. fundur,  19. okt. 2010.

störf þingsins.

[14:02]
Horfa

Birgir Þórarinsson (F):

Virðulegi forseti. Í síðustu viku fór fram í þinginu umræða um atvinnumál á Suðurnesjum. Alvara málsins sést best á því að sóknarprestar suður með sjó hafa sent ákall til stjórnvalda og hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt að staðan á Suðurnesjum eigi að vera okkar mesta áhyggjuefni og menn eigi að standa saman en ekki vera í umkenningaleik, eins og hann orðaði það. Ég tek heils hugar undir það og ég trúi því af einlægni að hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon hafi samúð með okkur Suðurnesjamönnum og sé allur af vilja gerður að hjálpa.

Þegar við sjáum síðan hæstv. ráðherra Vinstri grænna, eins og Ögmund Jónasson og Svandísi Svavarsdóttur, lýsa því yfir að þau séu á móti verkefnum sem skapa fjölmörg dýrmæt störf í atvinnuleysi og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir segir heimamenn brjóta lög þegar þeir vinna ötullega að nýjum atvinnuverkefnum þá skal engan undra að Suðurnesjamenn séu reiðir út í stjórnvöld. Hér blasir við að stjórnvöld standa ekki við sinn hluta samningsins, samningsins um að standa saman eins og hæstv. fjármálaráðherra hefur óskað eftir, og verður hæstv. fjármálaráðherra að viðurkenna að það er erfitt fyrir Suðurnesjamenn að treysta slíkum stjórnvöldum. Hugsjónir einstakra stjórnmálamanna á vinstri vængnum eiga að sjálfsögðu rétt á sér en þegar heill og hamingja fjölmargra fjölskyldna er í húfi, þegar velferð barna og ungmenna er í húfi, þegar vonin og lífsviljinn er tekinn frá fólki eru menn fastir í hlekkjum hugarfarsins, hlekkjum sem fæða af sér fátækt, vonleysi og þverrandi lífskraft. Samstaða og samvinna til heilla en ekki óhamingju, „að veita yður vonarríka framtíð“ eiga skilaboð stjórnvalda að vera til Suðurnesjamanna (Forseti hringir.) og þannig eiga skilaboð stjórnvalda til þjóðarinnar að vera á erfiðum tímum.