139. löggjafarþing — 15. fundur,  19. okt. 2010.

störf þingsins.

[14:07]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Frú forseti. (Utanrrh.: Meira handa okkur.) Meira handa okkur, segir hæstv. utanríkisráðherra. Það er alveg rétt að þessir aðlögunarstyrkir að Evrópusambandinu berast nú hingað, þessir IPA-styrkir. Um er að ræða tvenns konar styrki, það eru annars vegar styrkir til aðlögunar að regluverki Evrópusambandsins og hins vegar almennir styrkir til að kynna ágæti Evrópusambandsins og kosta áróðursherferðir Evrópusambandsins hér, svokallaðir TAIEX-styrkir. Þetta hefur verið rætt í þingflokki Vinstri grænna, innan grasrótar Vinstri grænna, og ég heyri ekki betur en að flestir séu mér sammála um að þessa IPA-styrki verði að stöðva, það verði að vinda ofan af aðlögunarferlinu og fara yfir í aðildarviðræðuferli. Ef ekki er vilji til þess eða svigrúm Evrópusambandsins býður ekki upp á að snúa ferlinu yfir í viðræður á nýjan leik er réttast að draga umsóknina til baka eða bera hana undir þjóðina áður en lengra er haldið.

Það er algjörlega ólýðræðislegt að ráðast hér í aðlögun upp á fleiri milljarða með aðkomu ríkissjóðs og mótframlögum úr ríkissjóði á sama tíma og skorið er niður um fleiri milljarða í velferðarmálum. Ég veit að öll ráðuneyti Vinstri grænna eru með alla þessa IPA-styrki í frosti, allir ráðherrar Vinstri grænna. Ég held það verði mjög erfitt að ná þeim þaðan. Ég treysti á þingheim allan að taka þátt í að breyta ferlinu á nýjan leik yfir í aðildarviðræður en ekki aðlögun.