139. löggjafarþing — 15. fundur,  19. okt. 2010.

störf þingsins.

[14:13]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir að vekja máls á því atriði sem hann tók upp og er skemmst frá því að segja að að mínu frumkvæði var þetta mál rætt á síðasta fundi í utanríkismálanefnd, málefni andófsmannsins Liu Xiaobo. Sú staðreynd að honum voru veitt friðarverðlaun Nóbels fyrir baráttu sína fyrir mannréttindum hlýtur að vekja upp spurningar um með hvaða hætti við, eins og aðrar þjóðir í kringum okkur, látum í okkur heyra vegna þeirrar stöðu sem hann er í.

Við ræddum þetta á vettvangi utanríkismálanefndar og fengum til okkar fulltrúa frá utanríkisráðuneytinu sem gerði grein fyrir því hvernig stefna íslenskra stjórnvalda hefði verið mótuð og henni komið á framfæri. Ég held að ég geti fullyrt að allir voru sammála um að það væri mjög mikilvægt að við létum skoðanir okkar skýrt í ljósi og opinberlega í þessu efni. Það er okkar mat að það hafi verið gert af hálfu utanríkisráðuneytisins með yfirlýsingu utanríkisráðherra hvað þetta varðar. Hún hefur verið birt á vef utanríkisráðuneytisins og er þar af leiðandi öllum ljós og opinber. Ég tel að það sé mjög mikilvægt. Hvort slík yfirlýsing er síðan borin í pósti á Víðimelinn, til sendiráðsins, eða ekki er kannski aukaatriði í þessu samhengi en það má gjarnan gera það. Það má alveg beina því til hæstv. utanríkisráðherra að afstaða stjórnvalda sé jafnframt tilkynnt kínverskum stjórnvöldum með formlegum hætti í einhvers konar nótuskiptum.

Ég vil síðan aðeins, vegna þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram um hina svokölluð IPA-styrki, láta það koma fram að eftir því sem ég best veit hefur á vettvangi ráðherranefndar um Evrópumál verið ákveðið að láta alla afgreiðslu á svokölluðum IPA-styrkjum bíða meðan farið er rækilegar yfir málin. Ég hef hugsað mér að á vettvangi starfshóps utanríkismálanefndar um Evrópumál verði fundað með ráðherranefndinni til að fara rækilega yfir stöðu þessara mála. Við höfum gert það einu sinni á vettvangi (Forseti hringir.) utanríkismálanefndar en þurfum að gera það aftur til að fá botn í það hvar þessi mál eru almennt séð stödd.