139. löggjafarþing — 15. fundur,  19. okt. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[15:03]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo það fari ekki á milli mála þá sagði ég í upphafi ræðu minnar að hæstv. ráðherra hefði farið yfir tölur og gert það vel og gat svo sem ekki annað gert því fjárlagafrumvarpið er nú einu sinni ekkert annað en tölur. Ég var ekki að saka hann um að gera það með öðrum hætti en ég ætlaðist til.

Varðandi svar hæstv. ráðherra um sendiherrabústaðinn upp á 870 millj. kr., sem ég staldra töluvert við, þá kom það fram í fjárlaganefnd að bústaðurinn var seldur fyrir 1,7 milljarða. Það er mér óskiljanlegt af hverju ein eða tvenn hjón þurfi húsnæði fyrir 1,7 milljarða, hvað þá 870 millj. við þær aðstæður sem er í dag. Nú er verið að leigja sendiherrabústað á sama tíma. Kostnaðurinn við að leigja sendiherrabústað frá því að eldri bústaðurinn var seldur og þar til sá nýi var keyptur var 15 millj. kr. á sjö mánaða tímabili. Það þýðir að það kostar í kringum 25 millj. kr. á ári að leigja svona húsnæði. Ég er að reyna að varpa ljósi á hvort ekki hefði verið skynsamlegra við þessar aðstæður að leigja bara áfram sendiherrabústað fyrir kannski 25 millj. í staðinn fyrir að kaupa fyrir 870 millj. þó ég geri mér fyllilega grein fyrir því að bústaðurinn hafi verið seldur fyrir 1,7 milljarða. Eitt hús fyrir 1,7 milljarða. Ég hef aldrei verið svo frægur að koma inn í nokkurn sendiherrabústað en það er algerlega ofar mínum skilningi að það þurfi að eiga húsnæði undir sendiherra fyrir hvort sem er tæpa 2 milljarða eða tæpan milljarð. Því spurði ég hæstv. ráðherra hvort hann hefði ekki verið með óbragð í munni þegar hann samþykkti þessi kaup í staðinn fyrir að leigja áfram bústaðinn fyrir u.þ.b. 25 millj. kr. Í ljósi stöðu efnahagsmála á Íslandi þá er þetta mér algerlega óskiljanlegt.