139. löggjafarþing — 15. fundur,  19. okt. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[15:05]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef grun um að leigukostnaðurinn sé ekki á nokkurn hátt sambærilegur við sendiherrabústað ef um hefur verið að ræða kannski litla íbúð þar sem sendiherrann bjó á meðan skipt var um húsnæði og ekki boðið á nokkurn hátt upp á sömu aðstöðu og reynt er að hafa í sendiherrabústöðum. Þó allt þurfi að vera í hófi þá er það samt almennt þannig að reynt er að hafa þar aðstöðu til taka á móti gestum og hafa þar einhverja starfsemi þannig að húsnæðið er ekki bara sendiherrabústaður heldur í raun og veru líka ákveðinn móttökustaður og andlit viðkomandi ríkis út á við á þeim stað.

Það er að sjálfsögðu alltaf álitamál hvort eigi að reyna að eiga slíkt húsnæði eða leigja það. Leiga er mjög dýr í miðborgum stórborga þar sem sendiráð okkar eru. Ef um er að ræða húsnæði af svipaðri stærð og þarna á í hlut þá er ég ekki viss um að það spari mikla peninga. Það má ekki gleyma muninum. Þarna er þó til staðar eign á móti. Það er ekki verið að kasta þessum peningum út um gluggann heldur er verið að kaupa eign. Ef það er allt saman gert af ráðdeild og menn kunna vel á þá hluti á auðvitað að hafa í huga að þeir fjármunir eru vísir, hvernig sem hlutirnir þróast.

Umtalsverðir fjármunir hafa verið innleystir með sölu bústaða, t.d. í London, New York og Kaupmannahöfn. Ætli það nálgist ekki 1,5 milljarða sem losaðir hafa verið í söluhagnað af bústöðunum að frádregnum kostnaðinum við að kaupa íbúðir á móti, a.m.k. í London og Kaupmannahöfn þar sem það hefur verið gert. Yfir þetta allt geta hv. þingmenn farið betur. Ég get alveg fullvissað menn um að fjármálaráðuneytið samþykkir ekki slíka gjörninga fyrr en að vel athuguðu máli og við höfum sent menn á vettvang til að meta þegar (Forseti hringir.) taka þarf ákvörðun um hvort ráðast eigi í kaup. Þá reynum við að fara rækilega yfir að þar sé eins hagkvæm lausn (Forseti hringir.) á ferðinni og kostur er.