139. löggjafarþing — 15. fundur,  19. okt. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[15:13]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að slíkir hlutir mundu væntanlega koma til umfjöllunar í tengslum við 2. eða 3. umr. fjáraukalagafrumvarps þegar niðurstaða lægi fyrir í því. Það eina sem ég gat sagt um málið á þessu stigi er að væntanlega þarf að koma til móts við vanda Íbúðalánasjóðs fyrir áramót með umtalsverðum hætti. Það gerir væntanlega enginn annar en eigandi hans. Ég veit ekki um neinn sjálfboðaliða sem er tilbúinn að leggja honum til aukið eigið fé eða hjálpa honum við að mynda fé til að leggja á afskriftareikning vegna áætlaðra tapa. Þar getur orðið um umtalsverðar fjárhæðir að ræða. Að sjálfsögðu verður jafnframt tekið mið af þeim niðurstöðum sem verða í sambandi við úrræði í þágu skuldugra heimila eftir því sem við á, hvort sem það varðar beint stöðu Íbúðalánasjóðs eða í gegnum skattkerfið eða með öðrum hætti.

Varðandi lífeyrisskuldbindingarnar og eftirlaun fyrrum starfsmanna ríkisbanka sem hv. þingmaður spurði um og er rétt að færðar eru undir fjármálaráðuneytið, þá er það svo að því miður situr ríkið uppi með þær skuldbindingar. Ríkið hefur samið við nýju bankana um að annast greiðslurnar og mun lýsa kröfum í búin vegna þeirra skuldbindinga. Þetta er ein af allmörgum erfðasyndum frá einkavæðingu bankanna sem núna vakna til lífsins og þeir sem að þeirri aðgerð stóðu verða nú að horfast í augu við sjálfa sig. En hvernig var þetta gert? Það var gert þannig að bankarnir voru einkavæddir og þeim fylgdu skuldbindingar og ábyrgðir frá ríkinu sem ekki voru gerðar upp, svo sem á útlánum sjóða sem ríkið hafði yfirtekið og eftirlaunaskuldbindingum fyrrverandi yfirmanna. Það voru ekki bara málverkin sem fóru ókeypis þegar bankarnir voru einkavæddir heldur fylgdu skuldbindingar ríkisins sem vakna svo til lífsins aftur (Forseti hringir.) þegar bankarnir hrynja. Ríkið þarf að gefa umtalsverðar fjárheimildir í ríkisábyrgðir og útgjöld af þessu tagi vegna þess hvernig að þessu (Forseti hringir.) var staðið. Ef eitthvað eru erfðasyndir þá er það þetta.