139. löggjafarþing — 15. fundur,  19. okt. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[15:31]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að taka það fram, svo að það fari ekki á milli mála, vegna þess að hæstv. ráðherra var svona frekar úrillur hér áðan, að ég fagna niðurstöðunum í frumvarpinu. Við erum að laga tekjur ríkissjóðs og breyta hallanum um tugi milljarða. Það er mikið fagnaðarefni í því erfiða og stóra verkefni að ná niður halla ríkissjóðs. Það er meginmálið að ná hallanum niður því að öðruvísi getum við ekkert vaxið í framtíðinni, og það háir okkur. Í fjárlagafrumvarpinu árið 2011 er meira að segja gert ráð fyrir að við séum að greiða 15% af heildartekjunum bara í vaxtagjöld. Það sjá það allir að það er að sjálfsögðu mikilvægasta verkefnið að við náum utan um fjárlagahalla ríkisins.

Ég fagna því líka, og það kom fram í máli hæstv. ráðherra, að margar stofnanir hafa verið að standa sig mjög vel. Það er mikið fagnaðarefni, það er mikill bati frá því sem verið hefur. Þó að ákveðin vandamál séu enn til staðar, sem eru að sjálfsögðu ekki óviðráðanleg, eru það samt stærstu póstarnir sem gera það að verkum að við náum þetta langt núna, eins og hæstv. ráðherra fór líka inn á í ræðu sinni, þ.e. annars vegar sala eigna upp á tæpa 20 milljarða og hins vegar lægri vaxtagjöld upp á 20 milljarða. Ég hef hins vegar miklar áhyggjur af þeirri þróun sem er að verða í skatttekjum. Ef við förum lauslega yfir það þá skila við endurskoðunina á fyrstu átta mánuðum, þ.e. í janúar til ágúst, hefðbundnar skatttekjur ekki því sem til var ætlast. Ég vil nefna örfá atriði.

Við erum annars vegar með skatta á einstaklinga sem fyrstu átta mánuðina eru 4,6 milljörðum undir áætlun. Það var dálítið merkilegt sem gerðist, eftir fyrstu sjö mánuðina var þetta 3,1 milljarður. Þetta hafði vaxið hægt og sígandi í hverjum mánuði en síðan kemur alveg gríðarlegt fall á einum mánuði upp á 1,5 milljarða, þ.e. breyting um 50% á einum mánuði. Nú þekki ég þetta ekki til hlítar. Ef hæstv. ráðherra gæti upplýst mig um hvað olli þessu yrði ég mjög þakklátur fyrir það. Til viðbótar fellur virðisaukaskatturinn, sem á þessum fyrstu sjö mánuðum, þ.e. 1. janúar til loka júlímánaðar, hafði verið kominn í rúma 6 milljarða í plús, á einum mánuði um 3,5 milljarða og fer niður í 2,5 milljarða í plús. Þetta sló mig þegar ég var að skoða þetta, þessi kúvending á einum mánuði. Af þessu hef ég verulegar áhyggjur og leyni því ekki.

Ef maður skoðar tekjugrunn ríkisins, þ.e. þessar hefðbundnu skatttekjur, hefur orðið gríðarleg breyting þar á tveimur árum, að sjálfsögðu í kjölfar hrunsins. Þessar hefðbundnu tekjur hafa dregist mjög saman á sama tíma og tekjur margra eru atvinnuleysisbætur og greiðsla séreignalífeyrisins og örorkubætur og alls konar bætur sem eru orðnar um 20 eða 25% af heildartekjunum í stabbanum. Ég hef verulegar áhyggjur af þessu. Að sjálfsögðu vona ég að áhyggjur mínar séu óþarfar en eigi að síður verðum við að horfa á myndina í heild sinni. Þetta veldur mér áhyggjum.

Eins og ég kom hér inn á áðan eru þessir hefðbundnu rekstrarliðir, þ.e. stofnanirnar og annað þar fram eftir götunum, á sæmilega góðu róli. Þeir stærstu póstar sem skapa þetta eru sala eigna, sem ég set ákveðið spurningarmerki við, eins og ég gerði í andsvari við hæstv. ráðherra — að vera að tekjufæra 17,5 milljarða sem á að greiða til baka með skuldabréfi til 15 ára inn á eitt ár. En látum það liggja milli hluta. Það er kannski ekki aðalatriði málsins hvort það er gert með þessum hætti eða öðrum, heldur að draga fram þá mynd sem við erum að fjalla um í dag, varpa á hana réttu ljósi. Ég er einungis að gera það þess vegna. Ég ætla ekki að stofna til deilna við hæstv. ráðherra um það að hann tekjufæri þetta á þessu eina ári en ég vil bara benda á heildarsviðsmyndina.

Það sem skapar vaxtagjöldin er í fyrsta lagi að gengið styrkist í staðinn fyrir að veikjast eins og reiknað var með í forsendum fjárlaga. Það eru líka lækkandi vextir í heiminum sem gera það að verkum að við spörum vaxtagjöldin þess vegna. Við höfum ekki heldur þurft að draga á allar þær erlendu lánalínur sem lagt var upp með í fjárlögum ársins 2010. Við þekkjum öll, og þarf ekki að fara að ræða það mjög djúpt, hinar svokölluðu Icesave-deilur, en að hluta til er það vegna þeirra deilna sem við drógum seinna á lánin. Og við þekkjum öll þann þrýsting og það óréttlæti sem beitt var af þeim ríkjum, bæði Evrópusambandinu og Bretum og Hollendingum, þegar verið var að fá okkur til að skrifa undir þann ömurlega samning. Það er eitt af þeim atriðum sem hefur áhrif á vaxtagjöldin, að þau eru lægri.

Mig langar aðeins að koma inn á vaxtabæturnar í sambandi við tekjur ríkissjóðs. Í ljós kemur að vaxtatekjurnar — og það er þessi stóri liður sem hækkar hér milli ára, hækkar um 1,7 milljarða, frá því sem gert var ráð fyrir í áætlun í fjárlagafrumvarpinu 2010, þ.e. hækkun á greiðslum sem fara til vaxtabóta til einstaklinga eða fjölskyldna. Þar kemur fram, og er vitnað til þess í textanum, með leyfi forseta, að 1.726 millj. kr. fjárheimild dugi fyrir útgjöldum:

„Þessi veikleiki í forsendum fjárlaga er talinn skýrast aðallega af vanmati á áhrifum af því að skuldir heimilanna hafa farið vaxandi á sama tíma og tekjur þeirra hafa lækkað.“

Ég er mjög hugsi yfir því, þó að ég ætli ekki að fara út í miklar pólitískar deilur við hæstv. ráðherra um það, hvort allir séu jafnsannfærðir um að æskilegt hafi verið að fara í þessar gríðarlegu skattahækkanir á sínum tíma. Ég er með alveg skýra skoðun á því, ég tel að það hafi verið misráðið. Það sýnir sig til að mynda í þeim skekkjum sem verða hér, upp á 1,7 milljarða í vaxtagjöld til fjölskyldnanna. Það sýnir sig líka í því sem er að gerast. Það er mjög óeðlilegt, ef menn fara að skoða það, að á sama tíma og skatttekjur einstaklinga eru að minnka snarlega er kaupmáttur að aukast, meira en gert var ráð fyrir í forsendum frumvarpsins, hann er meiri en gert var ráð fyrir. Og veltuskattarnir eru líka að aukast, þ.e. virðisaukaskatturinn. Er eitthvert samhengi þar á milli? Á sama tíma og við höfum minni skatttekjur aukast tekjurnar í veltusköttum og kaupmáttur er ekki eins lágur og reiknað var með, hann er skárri.

Þegar farið var í allar þessar skattahækkanir var varað við því að hugsanlega mundi svört vinna færast í vöxt. Nú er ég bara að hugsa upphátt og spyr: Er þetta staðfesting á því? Ég ætla ekki að fullyrða að svo sé en mér finnst þetta ákveðin vísbending í þá átt að þau varnaðarorð hafi verið orð að sönnu, að það hafi verið misráðið að fara í þessar gríðarlegu skattahækkanir á sínum tíma. Við erum alltént sammála um að á þenslutímanum átti ekki að lækka skatta og því hlýtur lögmálið líka að virka á þann veg að á samdráttartímum og erfiðleikatímum á ekki að hækka þá. Öðruvísi er ekki neitt samhengi í þessari umræðu. Ég tel því að skattahækkanirnar hafi verið misráðnar og líka í ljósi þess, og það kemur fram í fjárlagafrumvarpinu, að á sama tíma og skuldavandi heimila hefur aukist hafa tekjur heimila lækkað. Ég geri mér fulla grein fyrir því að fólk hefur misst vinnu eða yfirvinnu, var yfirborgað og þar fram eftir götunum, auðvitað spilar þetta allt saman, þetta er ekki alveg svart og hvítt, en ég held að þetta sé ákveðin skýring á þessum hlutum.

Virðulegi forseti. Mig langar líka að rifja upp, og það er ágætt að gera það annað slagið, það fennir svo fljótt yfir hjá manni, að við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2010 lögðum við á skatt fyrir fram fyrir árið 2011, 2012 og 2013, 1.200 milljónir á ári, sem greiða á til baka árið 2014. Þannig að við erum líka að taka dálítið fyrir fram, á þessu þriggja ára tímabili eru það 3,6 milljarðar. Við skulum líka vera meðvituð um að við erum að taka dálítið fyrir fram til að rétta okkur af núna.

Síðan er það þessi margfrægi sendiherrabústaður sem ég kom aðeins inn á í andsvari við hæstv. ráðherra hér áðan. Það stóð í fjáraukalagafrumvarpinu, og ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að skoða það, að bústaðurinn ætti að kosta 835 milljónir og 35 milljónir að laga hann, þ.e. 870 milljónir. Við fengum síðan blað frá utanríkisráðuneytinu í morgun þar sem fram kemur að þessi bústaður kostar 913,4 milljónir. Miðað við þær upplýsingar sem við fengum í morgun eru þessar tölur ekki réttar í fjárlagafrumvarpinu. Ég hvet hæstv. ráðherra til að skoða það, á meðan málið er í meðförum þingsins, til að hægt sé að leiðrétta það ef þetta er rangt. Ég verð hins vegar að ítreka að mér finnst það algjörlega óskiljanlegt að kaupa þurfi eitt stykki sendiherrabústað fyrir 913 milljónir. Ég skil það bara ekki og lái mér hver sem vill.

Hæstv. ráðherra svaraði því hér áðan að ekki væri hægt að setja þetta í það samhengi að leigan, sem áætlað er að verði 25 milljónir — eins og málin eru í dag er sjö mánaða leiga 15 milljónir; og þá þurfi að vera með stærra húsnæði með veislusal og þar fram eftir götunum. Það getur vel verið. En hefði nú ekki verið ráð að gera samning við eitthvert hótel með móttökusal til að sjá um veitingar og annað ef sendiráðin efna til veislu? Ég held að það hljóti að vera hagkvæmara. Ég er alveg sannfærður um það. Það þarf enginn að segja mér að í þeim sendiherrabústað sem er til leigu núna sé ekki hægt að taka á móti nokkrum einstaklingum og vísa þeim til stofu og halda fundi. Niðurstaðan er hugsanlega sú að það hefði verið mikið hagkvæmara að leigja bara sal og gera samning og þá má líka hafa í huga að á fundum í fjárlaganefnd með utanríkisþjónustunni, utanríkisráðuneytinu, hefur verið lagt til að úr öllu svona verði dregið og reynt að minnka þetta allt saman, allar ferðir og allar veislur, eins og hægt er. Þó að menn fái þarna mismun upp á 850 milljónir, við að selja annan og kaupa hinn, hefði verið skynsamlegra að gera þetta eins og ég var að benda á.

Mig langar líka aðeins að koma inn á liðinn ófyrirséð útgjöld hjá fjármálaráðuneytinu upp á 5 milljarða. Ég sagði strax í fyrra, þegar þetta var sett inn, að ég væri mjög hlynntur þessu. Þetta er mjög skynsamlegt vegna þess að það gefur okkur borð fyrir báru í fjárlögunum. Auðvitað kemur alltaf eitthvað upp á og það í báðar áttir. En það er samt betra að hafa borð fyrir báru, að hafa það í fjárlögunum, þannig að við séum með raunhæfari niðurstöðu. Ég tel þetta mjög skynsamlegt og minni á að það er nauðsynlegt að setja strangar reglur um þetta þannig að við þurfum ekki að vera að kýta um einstaka atriði, hvað eigi að fara þarna inn og hvað ekki. Ég tel hins vegar að í þessum fjáraukalögum sé til að mynda einn liður sem ætti að vera þarna, sem er t.d. hækkun um 90 milljónir vegna sjúkraflutninga. Það er kjarasamningsákvæði, ég teldi að það ætti að vera þarna inni. En það skiptir ekki alveg höfuðmáli. Aðalatriðið er að ég er mjög sáttur við þetta og sammála hæstv. ráðherra um að þetta sé þarna inni. Við þurfum bara að skerpa aðeins á reglunum þannig að menn hafi alveg skýrar reglur um það hvernig á að framkvæma þetta.

Að lokum vil ég geta þess, og ég ítreka það svo að það fari ekki á milli mála, að ég er mjög ánægður með að niðurstaðan er þessi, mun skárri en lagt var upp með. Ég tek undir það sem hæstv. ráðherra sagði að margar stofnanir standa sig mun betur en verið hefur, enda kannski kominn tími til. Ég vara hins vegar við þeim stóru breytum sem ég fór yfir áðan, að það eru svokallaðar einsskiptisaðgerðir sem hugsanlega koma okkur ekki að gagni eftir ár.