139. löggjafarþing — 15. fundur,  19. okt. 2010.

fjárhagsstaða sveitarfélaganna.

[16:10]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Ég þakka hæstv. sveitarstjórnarráðherra tækifærið til skoðanaskipta um þau mál sem eru nú á dagskrá. Ég spyr hæstv. ráðherra hvað sé fram undan hjá íslenskum sveitarfélögum í dag. Hvaða veruleiki bíður þeirra?

Ef við skoðum fjárhagsstöðu þeirra eins og hún birtist okkur í fjárhagsáætlun þeirra fyrir þetta ár má gera ráð fyrir því að áætlun þeirra miði við að framlegð sveitarfélaganna verði um 10,6 milljarðar upp í vexti, afborganir og framkvæmdir sem má áætla að liggi nálægt rúmum 30 milljörðum kr.

Launaliðir í rekstri sveitarfélaganna nema um 52% tekna og annar kostnaður eru rúm 42%. Það byggir á áætlunum sveitarfélaga fyrir árið 2010. Ég fullyrði að í mörgum tilfellum, sérstaklega hjá stærri sveitarfélögum, voru þær tiltölulega bjartsýnar.

Staða þeirra í dag er þannig að 12 sveitarfélög hafa fengið bréf frá eftirlitsnefnd sveitarfélaga. Af 76 sveitarfélögum eru 22 með skuldsetningu í A-hluta sem er yfir 150% af skatttekjum. 38 sveitarfélög af 76 voru með taprekstur í reikningum sínum í A-hluta árið 2009. Það er engin furða þótt hæstv. ráðherra sé spurður um hvaða veruleiki og viðfangsefni hann telji að bíði íslenskra sveitarfélaga á árinu 2011. Eins og allt stefnir í gera sveitarfélögin ráð fyrir 8 milljarða tekjufalli hér um bil í rekstri sínum á næsta ári. Þær upplýsingar komu fram á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga sem haldin var í síðustu viku.

Þá er ekkert annað fram undan en áframhaldandi hallarekstur, að menn fari að skuldsetja sveitarfélögin til þess að halda úti rekstrinum eða að skera mjög grimmt niður.

Í því ástandi sem nú er gerir maður kröfu til þess að opinber stjórnvöld, ríki og sveitarfélög, hafi með sér mikið og öflugt samráð með hvaða hætti eigi að takast á við þann veruleika þannig að sé hægt að hafa einhverja stjórn á því hvernig þær óhjákvæmilegu breytingar sem eiga eftir að verða á grunnþjónustu sveitarfélaga muni eiga sér stað. Það gengur ekki, eins og virðist vera lagt upp með er samráðið um þessi mál sé lítið sem ekkert.

Vissulega hefur farið fram á undanförnum missirum mótun ákveðinna verklagsreglna um fjármál sveitarfélaga. Sumum hættir til að segja að það sé gert til þess að koma böndum á slæma, óábyrga stjórn sveitarfélaga í landinu. Það er algjör misskilningur. Vinnan við setningu fjármálareglnanna hófst ekki fyrr en Samband íslenskra sveitarfélaga beitti sér fyrir því að sú vinna hæfist og þá með aðstoð fulltrúa frá hinum illræmda Alþjóðagjaldeyrissjóði.

Öguð og formföst fjármálastjórn ríkis og sveitarfélaga er auðvitað markmiðið í þessum efnum.

Til þess að sveitarfélögin ráði við verkefni sín er frumforsendan sú að ríkið gangi á undan með gott fordæmi og sýni það verklag af sér að hægt sé að treysta á það sem þar er gert.

Ég vil nefna undir lok ræðu minnar tillögur sem sveitarfélögin hafa lagt fram við litlar sem engar undirtektir. Allt frá því í nóvember árið 2009 hafa sveitarfélögin varpað upp mögulegum breytingum á tímabundnum frávikum frá lögum og reglum til að létta af þeim þeirri pressu sem þau standa undir í þessum efnum. Það er ekki gert til þess að fækka eða draga úr þjónustu heldur til þess að gera sveitarfélögunum kleift að hagræða með öðrum hætti en lög segja fyrir um í dag. Það snertir 28. gr. grunnskólalaga og 26. gr. sömu laga sem ég geri ráð fyrir að ráðherra sveitarstjórnarmála sé fullkunnugt um. Á sama tíma og sveitarfélögin fá ekkert svar frestar ríkisvaldið gildistöku framhaldsskólalaga og lætur þar með annað ganga yfir sjálft sig en sveitarfélögin. Það er ekki spurning um að sveitarfélögin þurfi að skera niður en þau reikna hins vegar ekki með því að íbúarnir þurfi að nálgast heimaþjónustu eða grunnskóla með því að stíga upp í flugvél eða þyrlu.

Ég spyr hæstv. sveitarstjórnarmálaráðherra hvort hann ætli sér að fljóta sofandi að feigðarósi eða taka stöðu með þeim (Forseti hringir.) ágætu sveitarstjórnarmönnum sem standa í því verkefni sem nánast virðist óviðráðanlegt um þessar mundir.