139. löggjafarþing — 15. fundur,  19. okt. 2010.

fjárhagsstaða sveitarfélaganna.

[16:33]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Sveitarfélög landsins hafa skyldur samkvæmt lögum og bera ábyrgð á stórum hluta opinberrar þjónustu. Til þess hafa þau alla burði svo ekki sé talað um ef þau kæmu sér saman um frekari sameiningar svo til verði stjórnsýslulega og efnahagslega sterkar einingar eða sjálfsagðar landfræðilegar sameiningar eins og hér á höfuðborgarsvæðinu.

Sveitarfélögin í landinu hafa fengið sinn skerf af efnahagslegum hamförum eins og heimilin og ríkið. Geta þeirra til að reka nærþjónustuna sem er á þeirra verksviði hefur minnkað fjárhagslega þó að ég viti að þau gera allt sem í þeirra valdi er til að varðveita gæði þjónustunnar. Það er eðlileg þróun að sveitarfélögin taki að sér fleiri verkefni sem teljast til nærþjónustu eins og nú er að gerast með málefni fatlaðra. Vonandi styttist í að málefni aldraðra flytjist einnig yfir til sveitarfélaganna.

Það er algjört grundvallaratriði að með verkefnum fylgi viðeigandi tekjustofnar til að standa undir þjónustunni. Því miður hefur það oft gerst að verkefni, stór og smá, hafa verið flutt yfir til sveitarfélaganna án nákvæmrar kostnaðargreiningar og án þess að tekjur séu tryggðar eða markaðar til verkefnisins.

Ríkið hefur eftirlitsskyldu með fjármálum sveitarfélaganna sem er hið besta mál. Það verður að segjast að við skýrslulestur frá Ríkisendurskoðun um ýmsar stofnanir og málasvið finnst manni stundum að það væri gott fyrir ríkið að líta sér nær og fylgjast náið með stofnunum sínum og hinu stjórnsýslustiginu. Það þarf að ríkja traust og jafnræði milli ríkis og og sveitarfélaga til að þau geti unnið saman að hag þegna sinna.

Mér finnst mikilvægt að sveitarfélögin fái eðlilega tekjustofna til að geta staðið undir skyldum sínum án hálfgerðra ölmusuframlaga frá stóra bróður. Ekki er hægt að sjá fyrir hversu há þau verða næsta árið. Sveitarfélögin gera alvörufjárhagsáætlanir til þriggja ára sem unnar eru út frá stefnumótun þeirra og starfsáætlunum. Kannski gæti ríkið farið í læri til sveitarfélaganna í þeim vinnubrögðum.