139. löggjafarþing — 15. fundur,  19. okt. 2010.

fjárhagsstaða sveitarfélaganna.

[16:37]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Já, ég tek þessi orð alvarlega og líka það sem ég hef áður sagt að menn verði að vera sanngjarnir í málflutningi.

Við upphaf umræðunnar hóf ég ræðu mína á því að vísa í fyrirhugaðan flutning á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga. Þar er búið svo um hnútana að málaflokknum eru búin betri fjárhagsleg skilyrði hjá sveitarfélögunum með framlagi ríkisins en ef málaflokkurinn hefði verið áfram hjá ríkinu. Það er ósanngjarnt að orða það svo að ríkið hirði skatta og setji einvörðungu álögur, kvaðir og byrðar á sveitarfélögin. Þannig er það ekki. Við lítum á samfélagið, hvort sem það er ríkið eða sveitarfélögin, sem eina heild eins og hv. þm. Jórunn Einarsdóttir vék að í sínum málflutningi. Ég mun verða við því, sem m.a. hún hefur óskað eftir, sveitarfélögin og hv. málshefjandi, að boðað verði til formlegs samráðsfundar með sveitarfélögunum hið fyrsta þar sem tekin verða upp málin sem hér var vikið að. Þar er talað um málefni grunnskólans og skólakerfisins og breytingar á lögum og reglugerðum eða samningum þar að lútandi. Þetta er flókið mál eins og við þekkjum öll. Þau snerta kjarasamninga eins og hæstv. menntamálaráðherra hefur vikið að. En það er sjálfsagt að ræða alla þessa þætti.

Hvað varðar sveitarfélögin og aðkomu þeirra að þessum málum og viðbrögðum þeirra við kreppunni var það svo að í síðustu viku var kynnt á vettvangi Evrópuráðsins hvernig sveitarfélögin og ríkið í sameiningu hefðu brugðist við, m.a. með smíði (Forseti hringir.) sérstaks regluverks, sem lítur senn dagsins ljós, hvernig eigi að haga fjárhag sveitarfélaganna. Það vakti athygli og hlaut lofsyrði. (Forseti hringir.) Ég endurtek, hæstv. forseti, og ágætt að forsetinn sem nú stendur hlýði á það, (Forseti hringir.) að á undanförnum missirum hefur samstarf sveitarfélaganna og ríkisins verið fært í góðan farveg.