139. löggjafarþing — 15. fundur,  19. okt. 2010.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

24. mál
[16:59]
Horfa

Flm. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Það þykir siðaðra manna háttur að færa rök fyrir skoðunum sínum og ályktunum á annarra manna viðhorfum og þeim tíðindum sem gerast í kringum þá. Ég harma það að hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson skuli ekki hafa tamið sér þau vinnubrögð.

Það er hins vegar um starf þingmannsins að segja að það er jafnmikið og hann vill sjálfur. Þingmaður getur í sjálfu sér komist upp með það, eða stundað það, að gera nánast ekki neitt. Ef hann er kjörinn og þykist sjálfur hafa umboð kjósenda sinna til að gera ekki neitt þá gerir hann ekki neitt. (GBS: Talar hver fyrir sig.) Það er ósköp einfalt.

Það sem almennilegur þingmaður reynir að gera er það að hann vinnur í hag sínu málefni, sínum kjósendum. (BJJ: Það gera allir.) Við skulum vona að þeir geri það einmitt allir og menn taka sér þá þann tíma til þess sem þeir vilja. Þegar menn eru kosnir í trúnaðarstöður af því tagi sem við erum að tala um fylgja því aukin áhrif og aukin völd. Þau geta verið takmörkuð við ákveðið svið, en það velur maðurinn sjálfur eða félagar hans velja hann til þess. En það eru aukin völd og aukin áhrif sem hann nær þá fyrir hönd kjósenda sinna og síns málefnis. Það sem aðrir gera er auðvitað að þeir vinna þá væntanlega meira á öðrum stöðum. Maður sem hefur ekki verið í miklum skylduönnum hér á þinginu hefur meiri tíma til að tala við kjósendur sína eða undirbúa mál fyrir sjálfan sig eða fyrir þann þingflokk, sem hann tilheyrir eða fyrir þá sem hann mælir fyrir hér á þinginu. Það er því ekki um það að ræða að hægt sé að segja að sumir vinni mikið og aðrir lítið vegna þess að þeir sinni ekki skyldustörfum. Það getur alveg verið öfugt og ég get nefnt dæmi um það ef þingmaðurinn fer fram á það en ég vildi frekar vilja gera það utan þingsalar.