139. löggjafarþing — 15. fundur,  19. okt. 2010.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

24. mál
[17:15]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Hér er á ferðinni, finnst mér, afar athyglisvert frumvarp. Ég sé bæði rök með og á móti því. Ég vil ekki kallað það lýðskrum og ég vil ekki kalla það popúlisma þótt við séum ekki öll sammála. Það eru vissulega sjónarmið á báða bóga.

Ég er í grunninn sammála þeirri hugmynd að jafnræði eigi að ríkja meðal þingmanna og að þingmenn eigi allir að vera á sömu launum. Ég vil líka vekja athygli á því að þetta er kannski aðeins flóknara. Þeir sem eru kosnir í landsbyggðarkjördæmunum fá aukagreiðslur þannig að í raun eru laun þeirra hærri en hinna sem eiga kjördæmi á höfuðborgarsvæðinu. (BJJ: Kostnaður líka.) En á móti kemur kostnaður sem þarf að taka tillit til. Og þau störf sem um ræðir, akkúrat í þessu frumvarpi, þ.e. annars vegar þingflokksformennska og formennska í nefndum, fela e.t.v. í sér aukið álag. Ég held að formennska í þingnefndum vegi þyngra, alla vega þeim þingnefndum þar sem flókin mál eru tekin fyrir. Ég held að formennska í þingnefndum, alla vega þeim nefndum sem ég á sæti í, sé mismikið starf, allt frá því að vera frekar auðvelt starf eða fela ekki í sér miklu meira álag út í að fela í sér alveg gríðarlegt álag þar sem mikið er um að vera. Að öðrum nefndum ólöstuðum er t.d. mjög mikið álag í viðskiptanefnd, bæði á formanni og öðrum þingmönnum sem þar eiga sæti.

Það er eitt sem ég sakna að tekið sé á í þessu frumvarpi. Það er að þeir þingmenn sem eru formenn stjórnmálaflokka, en ekki ráðherrar, skuli fá 50% álag á þingfararkaupið. Ég er mjög ósammála því. Þegar ég var formaður í stjórnmálaafli sem heitir Hreyfingin, frá því í september í fyrra til loka september nú í ár, afþakkaði ég þetta álag. Mér fannst ekki rétt að þiggja það. Það að vera formaður í stjórnmálaflokki er gríðarlega mikið starf og mikilvægt. Það er hins vegar ekki unnið fyrir Alþingi Íslendinga. Það er unnið fyrir frjáls félagasamtök úti í bæ sem heita stjórnmálaflokkar. Ef einhver á að greiða formönnum stjórnmálaflokka fyrir að vera formenn ættu það að vera stjórnmálaflokkarnir sjálfir. Þeir fá sko nóga peninga á fjárlögum ríkisins til þess.

Í Hreyfingunni, eða þinghóp Borgarahreyfingarinnar þar á undan, var tekin ákvörðun um að af þakka ekki álag á þingfararkaup þingflokksformanns. Við höfðum reyndar mjög litla hugmynd um hvernig starfið færi fram en við töldum að um væri að ræða meiri ábyrgð sem krefðist meiri viðveru en væri lagt á hina í hópnum. Þess skal getið að í okkar þinghóp lítum við ekki á starf þingflokksformanns sem eitthvert sérstakt valdaembætti; við erum með flatan strúktúr, það eru allir jafnjafnir, ef svo má að orði komast. Við lítum frekar á það starf sem einhvers konar þjónustustarf og það krefst aukinnar viðveru á álagstímum. Við tökum heldur ekki mikinn þátt í að „víla og díla“ þannig að starfinu fylgja ekki mikil völd.

Ég get tekið undir það sem hefur komið fram, að það að vera þingmaður sé mjög sérstakt starf. Manni hefur fundist fólk leggja mismikið á sig. Ef telja ætti klukkutímana og skrá í eitthvert verkbókhald held ég að sumir þingmenn mundu fá mun meira kaup en aðrir. En fyrst svo er ekki hallast ég að því að þingmenn eigi allir að fá sama kaup.