139. löggjafarþing — 15. fundur,  19. okt. 2010.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

24. mál
[17:42]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt að ég vona að þessi umræða verði til þess að draga athyglina að því máli sem hér er um að ræða, þ.e. starfsumhverfinu og öðru slíku. Það hefur hins vegar verið bent á ýmsa þætti í þessari umræðu sem hljóta að koma til skoðunar þegar mál sem þetta er lagt fram. Það breytir því hins vegar ekki, frú forseti, að það að leggja þetta mál fram núna er að mínu viti popúlismi og lýðskrum. Það er verið að draga athyglina frá þeim vandamálum sem ríkisstjórnin er á flótta undan og því kjósa þessir hv. þingmenn væntanlega að leggja þetta mál fram núna. Það er mitt mat á þessu.

Einn hv. þingmaður sagði áðan að launin ættu ekki að vera grunnur þess að fólk gefi sig fram í þetta starf. Ég ímynda mér — og nú ætla ég að segja orð sem má ekki segja í ræðustól, en það getur varla verið að miðað við starfsumhverfi og kjör alþingismanna sé nokkur maður að sækjast eftir laununum hér. Það er í rauninni bara alveg galið. Ég trúi ekki að nokkur sé að því. Umhverfi það sem okkur er útvegað hér eða okkur er ætlað að starfa í, hvort sem það er þjónusta þingsins, þá er ég ekki að tala um starfsfólkið, það er frábært starfsfólk sem vinnur hér í þinginu — en það hvernig framkvæmdarvaldið hefur dregið til sín aflið frá þinginu er vitanlega með ólíkindum og það kemur niður á störfum okkar að einhverju leyti.

En að segja það að formenn nefnda, stórra nefnda t.d., séu ekki að leggja neitt meira af mörkum heldur en — nú nota ég orðið sem hv. þingmaður notaði áðan sem er reyndar ekki gott orð — óbreyttir þingmenn. Í sjálfu sér erum við öll jöfn og eigum að sjálfsögðu að vera það, en sum okkar taka á sig aukaábyrgð eða aukavinnu eða eitthvað slíkt, aukaviðveru, og fyrir það finnst mér eðlilegt að greiða.

Ég get sagt við hv. þingmenn og verið heiðarlegur og hreinskilinn í því: Ég sæi ekki eftir laununum eða titlinum sem ég ber sem formaður þingflokks ef ég gæti verið aðeins meira með fjölskyldu minni. En vegna þess að ég gegni þessu starfi er ég með meiri viðveru hér margir aðrir. Ég finn til ákveðinnar ábyrgðar á því að vera hér og gera ákveðna hluti. Ég er alveg til í að fórna því og þessum þúsundköllum eða tíuþúsundköllum sem ég fæ fyrir það ef ég get verið meira með fjölskyldu minni. Ég er alveg til í það, (MÁ: Að launin komi í staðinn fyrir fjölskylduna?) það er ekki vandamálið. Veistu það, frú forseti, að það sem hv. þingmaður er að grípa hér fram í með er honum alveg til skammar. Hann er held ég, já, algjörlega til skammar eins og hans málflutningur allur í þessu máli.

Það að koma fram með þetta hér á þessum punkti þegar við erum að tala um að við þurfum að bjarga eða reyna að koma fjölskyldum í skjól, og hv. þingmenn hafa lítið lagt til þeirra mála vil ég meina, þá koma menn með svona frumvarp til að slá sig til riddara í augum þeirra sem um sárt eiga að binda.

Við skulum taka þessa umræðu. Ég get upplýst hv. þingmenn um það að ég er búinn að óska eftir því að það verði gerður samanburður á starfskjörum íslenskra þingmanna og þingmanna á Norðurlöndunum og í tveimur Evrópulöndum. Við skulum bara fara í gegnum þetta. Það er alveg sjálfsagt mál. En þetta mál eins og það er sett fram er eingöngu að mínu viti til þess að slá sig til riddara og alveg sorglegt að það skuli koma fram með þessum hætti.

Frú forseti. Ég ætla að endingu að segja að þeir útúrsnúningar sem hér voru hafðir uppi varðandi það að þingmenn séu hér á vaktinni 24 tíma sjö daga vikunnar, mér finnst það ekki sanngjarnt, því það getur vel verið að sumir þingmenn slökkvi á símanum sínum þegar þeir fara út úr þessu húsi, taki ekki símtöl eða eitthvað slíkt, en mörg okkar gera það ekki, hvort sem við erum í fríum með fjölskyldu eða annars staðar.