139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

raforkulög.

60. mál
[15:24]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður beindi hér til mín spurningu. Ég verð að segja að ég held að það gangi ekki hnífurinn á milli okkar í viðhorfum til þessara mála. Ég er hjartanlega sammála honum um að við eigum að vinna að því af allri okkar getu að jafna lífskjör í landinu.

Af því að hv. þingmaður nefnir hér fjárlagafrumvarpið, þá er það svo að innan þess liðar sem hefur heitið niðurgreiðsla vegna húshitunarkostnaðar hefur fjölmargt annað verið, svo sem jarðhitaleit, orkusparnaðarverkefni og fleira slíkt. Af honum hafa u.þ.b. 930–950 millj. kr. farið í beinu niðurgreiðslurnar. Liðurinn verður núna 974 millj. kr. og það er ætlun okkar að verja lögheimilin í landinu eftir fremsta megni. Ég hef kallað eftir samstarfi og samráði við Samtök sveitarfélaga á köldum svæðum og í það hefur verið vel tekið, þá ekki síst vegna þess að við þurfum líka að fara vandlega yfir þá þróun sem hefur orðið á orkuverði á landsbyggðinni og áhrif og samspil niðurgreiðslna og hækkana á gjaldskrám. Þetta munum við einhenda okkur í nú á næstu vikum, þ.e. iðnaðarráðuneytið og Samtök sveitarfélaga á köldum svæðum.