139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

fundarstjórn.

[11:23]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég taldi þegar hv. síðasti ræðumaður, Guðmundur Steingrímsson, tók til máls og sagðist ætla að bera klæði á vopnin að hann ætlaði að leggja til að hér yrði haldinn fundur þingflokksformanna eða hugsanlega annarra sem að þessu máli koma til að hægt væri að taka ákvörðun um dagskrá þingsins án þess að um það færu fram heitar umræður í salnum. Ég mun þá gera það að tillögu minni að það verði gert, að það verði rætt, ekkert endilega í þingsal heldur á smærri fundi hvernig hægt væri að koma því í kring að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir geti komið máli sínu að.

Í ljósi orða hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur um spurninguna um eftirspurn í samfélaginu eftir því hvað við ræðum hér, þá horfi ég á dagskrá dagsins (Forseti hringir.) og þar er afar misjafnt hvort málin hafa mikla skírskotun til þess ástands sem uppi er í þjóðfélaginu um þessar mundir (Forseti hringir.) og getur hver lesið þá dagskrá í því ljósi.