139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

fundarstjórn.

[11:26]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg):

Frú forseti. Mér finnst nóg sagt um þessa vitleysisvanhugsuðu tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um mál sem eru í ferli, en ég vil nota tækifærið hérna til að taka undir orð hv. þingmanns, ég tek ekki undir öll orð hans vegna þess að við veljum orð okkar með mismunandi hætti. Ég vil vekja athygli á því að það er neyðarástand ríkjandi meðal fátæks fólks á höfuðborgarsvæðinu (Gripið fram í: Heyr, heyr!) og hugsanlega víðar um land og ég hvet til þess að forseti fundi með þingflokksformönnum. Ég hvet til þess að skipuð verði nefnd þriggja ráðherra, menntamála- og mannréttindaráðherra, dómsmálaráðherra og fjármálaráðherra, um að grípa til aðgerða eigi síðar en nú þegar til að koma í veg fyrir að fátækt fólk stofni lífi sínu og heilsu í hættu með því að bíða eftir matarframlögum (Forseti hringir.) utan dyra núna á þessu kalda hausti. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)