139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

áform um breytingar á fiskveiðistjórnarlöggjöfinni.

[11:40]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra virðist hafa það á stefnuskrá sinni að henda sprengjum inn í sjávarútveginn með reglulegu millibili. Afleiðingin er alger óvissa sem hefur ríkt í þessari undirstöðuatvinnugrein okkar núna í hér um bil tvö ár. Það er sama við hvern talað er, alls staðar er sömu sögu að segja, menn þora sig hvergi að hræra. Vandamálið er ekki við fiskveiðarnar, ekki við vinnsluna, ekki við markaðssetninguna. Vandamálið er við Skúlagötu 4 í Reykjavík, í sjálfu ráðuneyti sjávarútvegs- og landbúnaðarmála. Þar er núna stærsti þröskuldurinn í vegi þess að sjávarútvegurinn fjárfesti, leggi í markaðsvinnu, búi til verðmæti, skapi aukinn gjaldeyri og fleiri störf.

Ég gerði það í morgun að hafa samband við nokkra aðila í skipaviðgerðaiðnaðinum, slippunum sem hæstv. ráðherra hefur stundum talað um hér í þinginu og talað um nauðsyn þess að efla. Sagan sem þeir sögðu var ekki glæsileg. Þeir notuðu orð eins og hrun og auðn og tómarúm. Einn sagði mér frá því að það væri ekki eitt einasta fiskiskip sem hefði pantað slipp það sem eftir lifir af árinu. Ástæðan fyrir þessu er skýr, það vita þeir, það vita útgerðirnar, það vita sjómennirnir — það er óvissan sem núna ríkir, hin pólitíska óvissa.

Það er enginn vafi á því að áhrifaríkasta og skjótvirkasta efnahagsaðgerðin núna væri í því fólgin að forustumenn ríkisstjórnarinnar stigju fram og lýstu því yfir að ætlunin væri að hverfa frá fyrningarhugmyndum og fara þá samningaleið sem endurskoðunarnefnd ráðherrans lagði til. Það mundi aflétta óvissunni, hrinda af stað fjárfestingum upp á marga milljarða króna og skapa umsvifalaust hundruð starfa. En þetta virðist ekki vera í boði. Þvert á móti, nýjasta útspil hæstv. ráðherra á aðalfundi Landssambands smábátaeigenda eykur óvissuna, bætir gráu ofan á svart, grefur okkur enn þá dýpra ofan í stöðnunina.

Orð ráðherrans eru sannarlega brigð á fyrri yfirlýsingum hans, svardagar og loforð hans frá fyrri tíð eru greinilega orðin fullkomið útsölugóss.

En við hverju er verið að bregðast af hálfu hæstv. ráðherra með því útspili sem hann kom fram með í síðustu viku? Jú, vandamáli sem hæstv. ráðherra hefur sjálfur skapað. Yfirlýsingar hans varðandi skötuselinn voru að eðlilegt væri að leigja skötuselinn frá kvótaleigu ráðuneytisins af því að handhafar veiðiréttarins hefðu ekki nýtt hann sjálfir. Í þessu felast mjög skýr skilaboð sem útgerðir um allt land skilja mjög vel. Það er verið að segja að það sé ekki rétt að leigja frá sér aflaheimildir af því að það kunni að leiða til þess að menn verði skertir í framtíðinni. Þess vegna hefur leigumarkaðurinn frosið. Þess vegna er hann orðinn botnfrosinn og vélstjórinn sem keyrir frystipressuna heitir hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason.

En hvernig er þessu máli tekið í sjávarútveginum? Tökum fyrst smábátaeigendurna, trillukarlana, sem ráðherra heiðraði með þessum vafasama hætti með því að kynna þessar hugmyndir um kvótaleigu sína í auknum mæli af hálfu ríkisins. Á aðalfundi Landssambands smábátaeigenda var ályktað með því að þar er sagt, með leyfi forseta:

„Fundurinn krafðist þess að auknum heimildum yrði úthlutað til núverandi handhafa veiðiheimilda enda hefðu þeir þurft að þola miklar skerðingar á undanförnum missirum og árum. Yrði ákvörðun ráðherra að veruleika mundu laun sjómanna lækka verulega og verið væri að kasta stríðshanska inn í greinina.“

Stríðshanska sem væri verið að kasta inn í greinina. Og er þetta ekki einmitt kjarni málsins? Menn hafa tekið á sig skerðingar í þorski í trausti þess að það mundi leiða til þess að þegar kvótinn ykist gætu menn bætt sér upp tekjutapið með vaxandi aflaheimildum. Nú er hins vegar slegið á þessar væntingar. Það blasir auðvitað við öllum að þorskkvótinn mun aukast á næstu árum. Nú grípur hæstv. ráðherra inn í og segir: Þeir sem hertu að sér, tóku á sig skellinn, munu ekki fá að njóta afrakstursins af uppsveiflunni í þorskstofninum. Og ekki bara þetta, hvað með fisktegundir þar sem kvóti kann að dragast saman á næsta fiskveiðiári eða á næstunni? Eins og t.d. í ýsunni, þar ætlar hæstv. ráðherra að framkvæma tvöfalda skerðingu hjá útgerðunum í landinu, fyrst með því að kvótinn dregst saman og síðan með því að taka hluta þess sem eftir er og leigja hann út. Þetta er vísasta leiðin til þess að menn gefast upp í greininni, sérstaklega minni aðilarnir, smærri fyrirtækin sem standa höllum fæti.

Það vita líka allir að sjómenn hafa árum saman barist gegn kvótaleigunni. Þeir lögðu höfuðáherslu á þetta í endurskoðunarvinnunni sem ég vék að hér áðan. Orð ráðherrans eru eins og blaut tuska framan í þá eins og þeir lýsa þessu sjálfir og þeir segja jafnvel að kjarasamningar sem eiga að fara fram nú í haust séu í hreinu uppnámi. Og það væri svo sem eftir öðru, ofan í allt annað er stefnan í sjávarútvegsmálum farin að spilla kjarasamningum sjómanna og útvegsmanna, ekki vegna ágreinings þeirra í milli heldur vegna sjávarútvegsstefnu hæstv. ráðherra. Ég þori ekki að segja sjávarútvegsstefnu ríkisstjórnarinnar því að það veit auðvitað enginn hvort að baki þessu sé vilji annarra ráðherra eða þingmanna stjórnarliðsins.

Þeir brosa hins vegar núna þessa dagana hringinn, mennirnir sem seldu kvótana og eygja núna von um að komast með þægilegum hætti að fiskveiðum að nýju. (Forseti hringir.) Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hæstv. ráðherra gleður þessa aðila, það er ljóst mál að sá (Forseti hringir.) hluti sjávarútvegsstefnunnar er skýr, að koma sérstaklega til móts við þá.