139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

áform um breytingar á fiskveiðistjórnarlöggjöfinni.

[12:02]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegur forseti. Ég sat í þessari endurskoðunarnefnd og skal staðfesta að niðurstaða nefndarinnar var sú að við lögðum til að farin yrði samningaleiðin, ekki tilboðsleiðin. Þetta var samþykkt af öllum nema tveimur í þessari fjölskipuðu nefnd. Í henni voru fulltrúar allra stjórnmálaflokka og allra hagsmunasamtaka. Um þetta var víðtæk samstaða í nefndinni sem ríkisstjórnin lagði upp með.

Varðandi sáttina er það þannig að ríkisstjórnin hóf vegferðina með orðið sátt á vörum, bera klæði á vopnin. Mér hefur hins vegar fundist upp á síðkastið, þegar ég fylgist með umræðunni, að ríkisstjórnin sé hætt að bera klæði á vopnin, nú geri hún eins og segir í kvæði Megasar, beri vopn á klæðin. Það er það sem hefur verið að gerast upp á síðkastið. Menn hafa hent sprengjum inn í umræðuna sem hefur torveldað allar leiðir til að ná samkomulagi um sjávarútveginn. Þetta síðasta sem hæstv. ráðherra gerði vekur spurningu um það hversu langt hæstv. ráðherra ætli að ganga. Hann segir að hann geri sér vonir um að það verði umtalsverðar upphæðir sem komi út úr leigubraskinu úr sjávarútvegsráðuneytinu. Hann segir jafnframt að það verði ekki leigður út kvóti nema þegar um aukningu er að ræða. Við vitum að í ýsunni eru meiri líkur en minni á því að þar verði kvótaminnkun. Er hæstv. ráðherra að segja að þetta nái fyrst og fremst til þorsksins? Hann nefnir líka íslensku sumargotssíldina. Við vitum hvernig ástandið er á henni, er einhver von um að þar verði kvótaaukning?

Að öðru leyti vil ég segja að þetta er blaut tuska í andlit fólksins sem hefur tekið á sig skerðingar undanfarin ár í von um að þeir fengju að njóta þess þegar betur gengi og betur áraði í hafinu. Nú segir hæstv. ráðherra: Nei, það kemur ekki til greina. Litlu karlarnir, litlu útgerðarmennirnir og hinir stærri sem þrengt hafa sultarólina, hert að sér, munu ekki njóta aukningarinnar. Það verður tryggt með því að hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) mun setja á stofn sérstaka leigumiðlun, leigubrasksfyrirtæki, (Forseti hringir.) sem hann ætlar að stjórna sjálfur.