139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

flutningur á málefnum fatlaðra.

[12:30]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Næstu áramót eru ekki bara endapunktur á ferli heldur líka nýtt upphaf til að láta til skarar skríða og takast á við öll þau fjölbreyttu verkefni sem blasa við í málaflokknum. Tvennt er mér ofarlega í huga sem mér finnst að við verðum að gæta að þegar við færum málaflokkinn. Annars vegar að gæta jafnræðis. Margir hafa komið inn á að það lúti að því að búa til einhvers konar staðlaða umgjörð utan um þjónustuna og að þjónustan sem hinum fötluðu býðst á Íslandi sé svipuð hvar sem þeir búa. Auðvitað er það svo að þó að við séum að færa þjónustuna á eitt og sama stjórnsýslustig erum við samt í raun og veru að færa þjónustuna á margar hendur, sem sagt til margra sveitarfélaga, og þá verður spurningin um staðlaða þjónustu og jafnræði mjög aðkallandi. En í því umhverfi má ekki gleymast að það er líka markmið að tryggja fjölbreytta þjónustu og tryggja að nýjungar séu í boði. Og það gæti kannski orðið dálítið erfitt í þessu umhverfi þar sem við erum svolítið upptekin af því að hafa staðlaða þjónustu og gæta jafnræðis. Þetta verður kannski dálítið erfitt vegasalt en ég held að það sé mjög mikilvægt að fara í þetta verkefni af fullum krafti, að tryggja fjölbreytni.

Hins vegar lýtur þetta að því að tryggja rekstrargrundvöll t.d. sjálfseignarstofnana eins og Sólheima sem nýtast mjög mörgum og margir vilja sækja slíka þjónustu og fatlaðir eiga að hafa slíkt val. Í sumar var samþykkt þingsályktunartillaga um að koma á notendastýrðri persónulegri aðstoð. Henni þarf að koma á fót þrátt fyrir að það sé markmið að hafa staðlaða þjónustu og koma henni þannig á fót að allir geti notið hennar. Sveitarfélögin þurfa að vera mjög opin fyrir þessari nýjung. Það er (Forseti hringir.) þetta tvennt sem ég vildi segja að við þyrftum að gæta að í þessum flutningum.