139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

húsnæðismál.

100. mál
[14:03]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta ákvæði getur skipt sköpum í þeirri hugsun sem ég var að tala um. Í stað þess að búa til nýja stofnun segir hæstv. ráðherra að það eigi að útvista því að annast um miðlun íbúðanna þó að stjórnsýslan eigi að fara fram innan Íbúðalánasjóðs. Það verður að vera alveg á hreinu hvernig þetta er framkvæmt samkvæmt lögunum því að við vitum að það er ekki hægt að koma upp virkum leigumarkaði nema ríkið hafi þar puttana í alla leið. Þó að regluverkið sé skilið eftir hjá Íbúðalánasjóði og þessu sé útvistað á einhvern annan hátt þá leggst umsýslugjald og annað ofan á verð viðkomandi leiguhúsnæðis, því við vitum að einkaaðilar vilja gjarnan komast í þau verkefni sem Íbúðalánasjóður á að sýsla með. Þar sem þetta er bara 1. umr. um frumvarpið hvet ég ráðherrann til að ganga úr skugga um hvort ekki sé hægt að hafa allan ferilinn og alla framkvæmdina í deild inni í Íbúðalánasjóði því eins og málin standa núna er það lífsspursmál fyrir íslensku þjóðina til framtíðar, í þeirri gjaldþrotahrinu sem nú er fyrirsjáanleg, að fólk hafi þak yfir höfuð sér.

Það er grundvallaratriði að einkaaðilar komi ekki að þessu með þessum hætti. Við sáum hvernig þessir svokölluðu einkaaðilar léku okkur í hruninu. Bankarnir ruddust inn á íbúðalánamarkaðinn og það olli hér allsherjarbankahruni á haustdögum 2008.

Ég treysti ráðherranum til allra góðra verka og skora á hann enn á ný að skoða þetta mál vel og hvet hann til að standa vörð um Íbúðalánasjóð og væntanlega leigjendur, að þessi mál verði í lagi svo fjármálasnillingarnir komist ekki líka með puttana í leigumarkaðinn.