139. löggjafarþing — 18. fundur,  21. okt. 2010.

Evrópska efnahagssvæðið.

61. mál
[16:34]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. utanríkisráðherra virðist ekki vera vel að sér í lögfræði enda held ég að hann eigi betur heima í fiskifræðum, eins og hann hefur oft í flimtingum. Um leið og frumvarp kemur fram í þinginu er verið að leggja til að það verði gert að lögum. Þar með hefur samningurinn lagalega bindandi gildi fyrir ríkið. Ég ráðlegg honum því að fá sér betri ráðgjafa því að svona gengur einföld lagasetning fyrir sig. Það kemur hér fram að Ísland hefur ávallt lagt á það ríka áherslu að okkur ber ekki lagaleg skylda til greiðslna af þessum toga.

En við þekkjum þetta frá því í fyrrasumar, hið svokallaða Icesave-mál sem allir ættu að kannast við og líklega er enn verið að semja um það. Okkur ber ekki nokkur einasta lagaleg skylda til að greiða Icesave-reikningana svokölluðu. Hæstv. fjármálaráðherra hamast við að sturta þeirri skuldbindingu yfir íslensku þjóðina, svipað og hæstv. utanríkisráðherra gerir nú.

Mér fannst þetta mjög sanngjörn spurning og spyr hæstv. utanríkisráðherra að henni á ný: Finnst honum eðlilegt að Ísland leggi tæpa 6 milljarða í erlendum gjaldeyri — þegar við stöndum sjálf svo illa fjárhagslega — til ríkja eins og t.d. Grikklands, Búlgaríu, Tékklands, Kýpur, Möltu, Póllands, Portúgals, Rúmeníu og Slóveníu? Eigum við ekki að líta okkur nær og reyna að nota þetta fjármagn innan lands og reyna frekar að greiða niður eitthvað af skuldum okkar sem eru nú þegar á gjalddaga, þó ekki væri til annars en að minnka hér niðurskurð? Ég spyr hæstv ráðherra: Út af hverju er ekki frekar samið um undanþágu Íslendinga á greiðslu þessara peninga næstu fimm árin í stað þess að setja inn lagaskyldu í formi (Forseti hringir.) frumvarps og binda okkur endanlega í þessum samningi?