139. löggjafarþing — 18. fundur,  21. okt. 2010.

reglur um verkferla og hæfnismat við opinberar embættisveitingar.

67. mál
[17:47]
Horfa

Flm. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um mótun reglna um verkferla og hæfnismat við opinberar embættisveitingar. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þingmenn Álfheiður Ingadóttir, Eygló Harðardóttir og Magnús Orri Schram.

Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að skipa nefnd með þátttöku allra þingflokka er hafi það verkefni að móta reglur og eftir atvikum semja frumvarp til laga um verkferla og meðferð og þýðingu faglegs hæfnismats við skipan í opinber embætti. Nefndin kanni m.a. kosti þess að faglegar hæfnismatsnefndir fái víðara verksvið og veiti umsagnir um fleiri embætti en nú gildir og hvort ástæða sé til í einhverjum tilvikum að færa skipunarvald frá ráðherrum til sérstakra hæfnisnefnda eða Alþingis. Stefnt skal að því að nefndin ljúki störfum fyrir 1. mars 2011.“

Það er kunnara en frá þurfi að segja að opinberar stöðuveitingar eru vandmeðfarnar en vekja oft harðar deilur og valda kærum. Mörg dæmi eru um það að umboðsmaður Alþingis eða kærunefnd jafnréttismála hafi fengið slík mál til umfjöllunar og komist að þeirri niðurstöðu að einstakar stöðuveitingar hafi ekki byggst á málefnalegum sjónarmiðum eins og allar stjórnvaldsákvarðanir verða að gera. Þvert á móti hafi geðþótti eða eigið mat einstakra ráðherra verið látið ráða, jafnvel í tilfellum þar sem sérstakar hæfnisnefndir hafa fjallað um umsóknir og skilað rökstuddu áliti. Það er staða sem samrýmist ekki sífellt harðari kröfum til opinberrar stjórnsýslu.

Það er mikilvægt að almenningur beri traust til stjórnsýslunnar og geti reitt sig á að stjórnvaldsákvarðanir eins og opinberar stöðuveitingar standist skoðun þannig að umsækjendur um opinbert starf geti gengið út frá því sem vísu að þeir séu metnir á grundvelli málefnalegra sjónarmiða og þeirra krafna sem gerðar eru til viðkomandi starfs og auglýstar hafa verið.

Embætti í dómskerfinu eru sérstaklega mikilvæg í þessu tilliti enda dómsvaldið eitt af grunnstoðum þrískiptingar ríkisvaldsins. Enginn vafi má leika á um hlutleysi dómstóla eða á því að dómarar séu valdir til starfa á faglegum forsendum eingöngu. Með lögum nr. 45/2010 var dómstólalögunum breytt á þann veg að sérstök fimm manna dómnefnd fjallar um hæfi umsækjenda um dómarastöður og kýs Alþingi einn dómnefndarmanna. Þessi nýbreytni setur ráðherra verulegar skorður á þann hátt að honum er nú gert að velja umsækjanda úr hópi þeirra sem metnir eru hæfastir, en fram að þessari lagabreytingu var ráðherra með öllu óbundinn af áliti umsagnaraðila. Engu að síður er full ástæða til að nefndin skoði hvort þessar breytingar teljist fullnægjandi til að tryggja að skipan dómara verði ekki tortryggð heldur þvert á móti auki traust almennings á dómskerfinu.

Í nokkrum fleiri tilvikum er kveðið á um sérstakar hæfnisnefndir eða dómnefndir sem þá eiga að fjalla um umsækjendur og meta hæfi þeirra og hæfni. Er það m.a. venjan við stöður við háskóla og dómstóla eins og að framan greinir. Hlutverk slíkra hæfnisnefnda má ekki vera neinum vafa undirorpið, né heldur þýðing þess mats sem þær vinna og að hve miklu leyti veitingarvaldshafinn er bundinn af áliti matsnefnda. Enn fremur er full ástæða til að skoða hvort slíkar hæfnisnefndir eigi við í fleiri tilvikum en nú er. Sérstaklega þarf að huga að því hvort ástæða sé til að flytja skipunarvald að einhverju leyti frá ráðherrum til sérstakra hæfnisnefnda eða jafnvel í einhverjum tilvikum til Alþingis.

Það eru ríkar ástæður til þess, virðulegur forseti, að móta sérstaka verkferla við skipan í opinber embætti og kanna með hvaða hætti það verður best gert. Kemur þar hvort tveggja til greina að mínu mati að setja sérstök lög um þessi málefni eða að samþykkja sérstakar reglur sem gefnar væru út af forsætisráðherra.

Í þeim tilgangi að móta slíkar reglur eða eftir atvikum að semja frumvarp til laga er hér lagt til að forsætisráðherra skipi nefnd með þátttöku allra þingflokka er ljúki störfum fyrir 1. mars 2011 svo að nýjar reglur og eftir atvikum ný lög geti tekið gildi um mitt ár 2011.

Þessi tillaga var áður flutt á bæði 135. og 136. löggjafarþingi en komst í hvorugt skipti á dagskrá. Hún er því endurflutt, lítillega breytt.

Ég legg til að að lokinni þessari umræðu, virðulegur forseti, verði tillögunni vísað til síðari umræðu og hv. allsherjarnefndar.