139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

atvinnuleysi.

[14:17]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Það er merkilegt að heyra hæstv. forsætisráðherra lýsa því yfir hve vel gangi hér hjá ríkisstjórninni á sama tíma og Austurvöllurinn er að fyllast af fólki sem er að mótmæla aðgerðaleysi þessarar ríkisstjórnar. (Utanrrh.: Og mótmæla þér.) Það fólk er ekki að fagna góðum árangri þessarar ríkisstjórnar, hæstv. utanríkisráðherra.

Ég ætla að leyfa mér að ræða við hæstv. forsætisráðherra um vandamál heimilanna og vandamál fyrirtækjanna og, það sem er kannski alvarlegast, atvinnuleysið sem er til staðar á Íslandi. Atvinnuleysi er eitthvert mesta böl sem nokkur þjóð þarf að ganga í gegnum. Einstaklingar, þeir sem þó hafa vinnuna, hafa lækkað í launum og bera minna úr býtum. Þennan vanda verður að leysa til þess að Ísland nái sér aftur upp á lappirnar. Það verður ekki gert nema með róttækum tillögum í atvinnumálum og málefnum fyrirtækjanna í landinu, fyrirtækjanna sem skapa störfin fyrir fólkið. Öðruvísi verður ekki hægt að skapa hér þau störf sem nauðsynlegt er að skapa.

Samtök atvinnulífsins, ASÍ og stjórnarandstöðuflokkarnir á þingi, nú síðast Sjálfstæðisflokkurinn með viðamestu aðgerðaáætlun sem fram hefur komið frá hruni um endurreisn atvinnulífsins, hafa lagt fram tillögur til þess að reyna að blása lífi í atvinnulífið og fjölga hér störfum. Ríkisstjórnin í landinu er hins vegar, að því er virðist, eina stofnunin á Íslandi sem ekki hefur lagt fram neinar tillögur eða hugmyndir í atvinnumálum en hefur þess í stað eytt öllum sínum kröftum í að skjóta niður hugmyndir annarra, annarra stjórnmálaflokka og fulltrúa atvinnulífsins. Úr því að þessar tillögur hafa ekki komið fram, hvorki á fundum hæstv. forsætisráðherra né í opinberri umræðu, langar mig til að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvað það er sem ríkisstjórnin ætlar að gera (Forseti hringir.) til þess að koma atvinnulífinu í gang á ný. Hvernig ætlar ríkisstjórnin að fjölga störfum í landinu og hvenær verða þær tillögur lagðar fram á Alþingi (Forseti hringir.) svo við getum farið að takast á um þær og ræða þær?