139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

atvinnuleysi.

[14:24]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Af því að hér var nefndur stöðugleikasáttmálinn er ástæða til að rifja upp af hverju aðilar fóru frá honum. Samtök atvinnulífsins fóru frá honum út af skötusel og ASÍ vegna þess (JónG: Sýndu þessum samtökum einhverja virðingu.) að það taldi að ekki hefði verið efnt eins og það vildi fjármagn inn í Starfsendurhæfingarsjóð.

Hv. þingmaður sem hér er með þessa fyrirspurn hefur með flokki sínum kallað mjög eftir því að fara í samráð við ríkisstjórnina um atvinnumálin og atvinnuuppbyggingu. Það hefur ekki liðið fundur með varaformanni Sjálfstæðisflokksins um skuldavanda heimilanna án þess að talað sé fyrir því að við mundum líka hafa samráð um atvinnumál og atvinnuuppbyggingu sem væri hin hliðin á peningnum. Við vorum sammála hv. varaformanni Sjálfstæðisflokksins um það (Gripið fram í.) og kölluðum þess vegna til þessa samráðs sem við byrjuðum með ASÍ fyrir nokkrum dögum og með stjórnarandstöðunni í gær með þeirri niðurstöðu sem menn þekkja. Og (Forseti hringir.) ég tók auðvitað eftir því í útvarpinu í hádeginu í dag að ASÍ harmaði mjög að stjórnvöld gætu ekki náð saman um það. Það ber að taka undir það vegna þess að það er fyrst og fremst samstöðuleysi hér innan þessara veggja (VigH: Rangt.) sem veldur því að við getum ekki farið hraðar í þessa endurreisn en raun ber vitni. [Háreysti í þingsal.]