139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

samvinnuráð um þjóðarsátt.

80. mál
[15:18]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er hárrétt sem hv. þingmaður bendir á að menn verða að ræða pólitísk álitamál, takast á um þau jafnvel, en svo þarf að liggja fyrir niðurstaða og þá þarf að fylgja henni eftir. Það er það sem hefur vantað. En af þeirri ástæðu og þeim ástæðum sem við höfum rætt hérna, um hættuna á að þetta verði enn ein leiksýningin, þá held ég að besta lausnin væri sú sem ég og fleiri hafa nefnt að undanförnu að hér yrði einfaldlega komið á þjóðstjórn í ákveðinn tíma um tiltekin mál. Hvaða staða kemur þá upp? Þá er komin upp sú staða að það er bara meiri hluti þingmanna sem ræður í hverju máli fyrir sig, m.a. í atvinnumálum. Ég held, eins og hv. þingmaður benti á, að það sé meiri hluti fyrir flestum góðum málum, bæði í samfélaginu og í þingsal, ef losnar um það ofurvald sem forustumenn ríkisstjórnarinnar hafa á þingsalnum. Með þjóðstjórn mundum við þá loksins veita þinginu það vald sem alltaf er verið að tala um að skorti hér. Þá mundi löggjafinn hafa valdið og einfaldur meiri hluti í þinginu ráða för. Annars er alltaf sú hætta fyrir hendi og sú tilhneiging sem hefur verið að ef tillaga kemur frá pólitískum andstæðingum sé hún ekki góð og gild.

Ég nefni eitt nýtt dæmi. Hæstv. forsætisráðherra sagði í ræðu sinni áðan í fyrirspurnatíma að það væri eitt og annað að tillögum sjálfstæðismanna, m.a. tillagan um kvótaaukningu. Hæstv. forsætisráðherra sagði: Hvað mun Hafró segja um þetta? Við skulum sjá til með það. En hvað stendur á blaði sem forustumenn ríkisstjórnarinnar lögðu fram á þessum svokallaða samráðsfundi í gær? Hverjar eru tillögurnar um hvernig megi skapa störf? Það er ýmislegt svona almennt, að skapa græn störf og þekkingariðnað og allt þetta en það er ein konkret tillaga: Að auka kvóta. Engu að síður kemur hæstv. forsætisráðherra hér og gagnrýnir annan flokk fyrir nákvæmlega sömu tillögu.