139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

störf þingsins.

[11:14]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Fólk stendur í biðröðum eftir mat á Íslandi. Hvernig getur staðan verið orðin þannig að einstaklingar þurfa að þiggja matargjafir viku eftir viku á Íslandi — í hinu norræna velferðarsamfélagi, Íslandi? Velferðarvaktin talar við hjálparsamtökin og vill fá þau til að hætta að dreifa mat með þessum hætti, vandinn má ekki sjást. Félagsþjónusta sveitarfélaganna gagnrýnir hjálparsamtök fyrir ófagleg vinnubrögð, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar segir að borgin hafi áhyggjur af þessum röðum, þessi aðferð sé ekki uppbyggileg og hvetji ekki til sjálfshjálpar. Formaður velferðarvaktarinnar, stýrihóps á vegum félags- og tryggingamálaráðuneytisins, talar um að þetta sé heldur ekki boðlegt og að matargjafirnar geti stuðlað að frekari ógöngum þeirra sem matinn þiggja. Hún hvatti til að leysa vandann, að sett yrðu neysluviðmið, en nefndi hins vegar ekki hvort opinberar stofnanir ættu að fara eftir þessum neysluviðmiðum eða ekki.

En hvar eru þessi neysluviðmið? Ég spurði forsætisráðherra fyrir ári hverju það sætti að ekki væri búið að setja neysluviðmið á Íslandi þrátt fyrir að ráðherrann hefði sjálf lagt fram tillögu eftir tillögu þegar hún sat í stjórnarandstöðu um að sett yrðu neysluviðmið. Ráðherrann svaraði mér þá að hún væri búin að fela viðskiptaráðherra að skoða málið.

Síðan er liðið eitt ár og velferðarvaktin, sem er stýrihópur á vegum ríkisstjórnarinnar, kallar nú eftir þessum neysluviðmiðum.

Það er algjörlega óásættanlegt að verið sé að kenna hjálparsamtökum, einstaklingum sem gefa vinnu sína til að hjálpa náunganum, um að stuðla að frekari ógöngum þeirra sem matinn þiggja. Það er algjörlega óásættanlegt. Ef þessi blessuðu neysluviðmið eiga að vera lausnin hvet ég til þess að við setjum einfaldlega lög um neysluviðmið þar sem framkvæmdarvaldið virðist vera ófært um að gera það sjálft. Ef vandinn er atvinnuleysið skulum við koma atvinnulífinu aftur í gang og ef vandinn er skuldir heimilanna og fyrirtækjanna skulum við taka á honum líka. Það er kominn tími til að sérfræðinganefndin fari að skila (Forseti hringir.) af sér. (BirgJ: Heyr, heyr.)