139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

störf þingsins.

[11:26]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem fram kom hjá hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni að verkefnin sem við okkur blasa á sviði skuldavanda heimila, á sviði vandamálanna í atvinnulífinu og efnahagsmálanna almennt eru þess eðlis að allir verða að leggjast á árarnar. Um það getum við verið sammála.

Í því skyni hafa einstakir flokkar lagt fram hugmyndir. Það vakti athygli mína, af því að hæstv. forsætisráðherra hefur talað töluvert mikið um samráð að undanförnu, að fyrstu viðbrögð hennar við því þegar við sjálfstæðismenn kynntum opinberlega efnahagstillögur á mánudaginn var, í fjölmiðlum, voru þau að hún fann tillögunum allt til foráttu. Viðbrögð hæstv. forsætisráðherra voru 100% neikvæð. Daginn eftir að hæstv. forsætisráðherra var í viðtali í fjölmiðlum þar sem hún braut niður þær tillögur sem við höfum lagt fram fengu forustumenn Sjálfstæðisflokksins boð um að þeir ættu að koma á samráðsfund. (Gripið fram í: Nú?) Og eðlilega segja menn þegar þeir mæta til slíks fundar: Samráð um hvað og á hvaða forsendum? Þar skortir alfarið útspil eða sýn eða stefnumörkun af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Eins og hv. síðasti ræðumaður tiltók hafa aðrir aðilar í þjóðfélaginu, aðilar á vinnumarkaði, stjórnarandstöðuflokkar, lagt spilin á borðið og sýnt hvaða áherslur þeir telja mikilvægastar í þessu sambandi. En ríkisstjórnin situr ráðalaus, skoðanalaus og stefnulaus í þessum málum og því hljótum við að spyrja enn og aftur: (Forseti hringir.) Á hvaða forsendum á samráð að vera? Samráð um góð mál er nokkuð sem við styðjum (Forseti hringir.) en við verðum að vita á hvaða forsendum samráðið á að vera.