139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[12:13]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Þetta voru nokkuð skýr svör frá formanni Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Bjarna Benediktssyni, um að afnema þrepaskipta skattkerfið sem þó skilar þeim árangri, miðað við álagningu síðasta árs, að færa skattbyrðina af lágum launum yfir á hærri launin. Það hefur tekist, gögn (TÞH: Þetta kerfi var ekki á síðasta ári.) sýna það og það á að afturkalla (Gripið fram í.) þær skattbreytingar að mati Sjálfstæðisflokksins og fara aftur í það sem áður var.

Það er annar þrepaskattur í gangi sem heitir auðlegðarskattur og er lagður á hreina eign umfram háar upphæðir, 120 millj. kr. hjá hjónum ef ég man rétt. Um lágan skatt er að ræða. Er Sjálfstæðisflokkurinn að leggja til að sá skattur verði sömuleiðis afturkallaður, þ.e. þrepaskattkerfið annars vegar í tekjuskattskerfinu og sömuleiðis auðlegðarskatturinn? Er Sjálfstæðisflokkurinn að leggja til að það verði afturkallað sömuleiðis?