139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[12:14]
Horfa

Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Sá mikli árangur sem hv. þingmaður vísar til að hafi orðið er miðaður við tölulegar staðreyndir frá árinu 2009 en staðreyndin er sú að þrepaskipta skattkerfið var þá ekki komið til framkvæmda þannig að það er ákveðinn misskilningur í þessu hjá hv. þingmanni.

Árangurinn sem hv. þingmaður telur að hafi hlotist af því að hækka skatta á alla tekjuhópa er mjög mikill misskilningur almennt séð. Það kemur engum til góða að hækka skatta á lágar tekjur, eins og ríkisstjórnin hefur gert með afnámi verðtryggingar persónuafsláttarins, og millitekjur og á hæstu tekjurnar og síðan að bæta við nýja auðlegðarskattinum sem er auðvitað ekkert annað en eignarskattur með nýju nafni ofan á allt saman. Við greiddum atkvæði á móti auðlegðarskattinum á sínum tíma og við erum enn þá á móti auðlegðarskattinum. Nú eru Svíar að afnema þennan eignarskatt sem sósíaldemókratarnir komu á á sínum tíma vegna þess að þeir sem eru í því skattþrepi eru einfaldlega að fara frá Svíþjóð. Það sama mun gerast á Íslandi. Það er nú þegar hafið að þeir sem eru á því skattabili (Forseti hringir.) eru að leita leiða til að koma sér undan skattinum. (Forseti hringir.) Þeim er bæði gert ókleift að (Forseti hringir.) ávaxta sparifé sitt (Forseti hringir.) með fáránlega hárri skattlagningu og (Forseti hringir.) þeir þurfa síðan að selja eigur sínar til að standa undir (Forseti hringir.) auðlegðarskattinum.