139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[12:33]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir nokkuð jákvæða ræðu og yfirgripsmikla. Ég vil gera athugasemd við það að búið er að reisa tvö fyrirtæki í kjördæmi hans, þ.e. aflþynnuverksmiðjuna sem reist var 2007 og veitir mörgu fólki atvinnu og svo er hljóðlega verið að grafa fyrir kerverksmiðju í Reyðarfirði sem er líka í kjördæmi hans og veitir 160 manns atvinnu á byggingartímanum sem breytir stöðu ríkissjóðs. Annars vegar borgar ríkissjóður ekki atvinnuleysisbætur með fólkinu, 160 manns, sem eru um 2 milljónir á ári og hins vegar fær hann skatta frá þessu fólki af auknum tekjum þannig að þetta er mjög jákvætt.

Ég vil spyrja hv. þingmann af því að hann talaði um ráðstafanir fyrir heimilin, að þær séu nú í bígerð og allt slíkt: Líður honum ekki illa með það að verið sé að gera ráðstafanir fyrir heimilin sem ekki byggja á raunverulegum staðreyndum? Þær upplýsingar sem eru nýjastar eru samkvæmt skattframtali, þær eru ársgamlar, og þær eru frá því fyrir dóm Hæstaréttar sem gjörbreytti stöðu 40.000 heimila til bóta. Er hann ekki sammála mér um að það þurfi að kortleggja þetta landslag áður en menn fara í gang? Hver er t.d. staða leigjenda og hvað eru þeir margir? Ég fæ ekki einu sinni tölu um það. Ég giska á að 15% þjóðarinnar séu leigjendur. Þeir búa við síhækkandi leigu og svo á að fara að skerða húsaleigubæturnar. Hjá sýslumanni í Keflavík voru 36 útburðir á leigjendum og einn vegna húseiganda sem skuldaði.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Þarf ekki að fá miklu skarpari og betri mynd af þessu landslagi sem við siglum um og ætlum að fara að gera miklar breytingar á með þeim ráðstöfunum sem ríkisstjórnin hyggst gera?