139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

ráðherraábyrgð.

72. mál
[14:46]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr mig um einstakt mál, hann spyr hvort ég telji að það geti átt við um það frumvarp og þá ábyrgð sem er verið að kalla eftir hér. Ég hef ekki hugmynd um það og mér finnst þetta mál ekki vera þess eðlis að það snúist um eitt mál nema það sé ætlun flutningsmanna að það sé lagt fram hér út af einu tilteknu máli. Ég veit ekki hvort það hefur komið fram í málflutningi flutningsmanns hér áðan, ég a.m.k. reyndi að hlusta á það með athygli. Ég varð ekki var við að þetta frumvarp væri lagt fram út af einu tilteknu máli og væri verið að spyrja að því hvort það eina tiltekna mál ætti heima undir þessum lagabreytingum. Eða er það þannig? Er það ætlunin með frumvarpinu? Geta flutningsmenn svarað mér því hvort það sé ætlun með frumvarpinu og tilurð þess sé vegna þeirra spurninga sem hér voru bornar upp? Ég kýs að líta ekki þannig á.

Sé það þannig tel ég að það sé borið upp á röngum forsendum. Ekki var það ætlun Páls Péturssonar á 116. löggjafarþingi að bera þetta sama mál upp út af þeirri ástæðu sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson spyr hér um og hvort ég telji að það tiltekna mál falli hér undir. Það er bara ekki mitt að svara því.

Ég held að þetta sé fínt frumvarp. Þetta er gott mál. Við eigum að fara með það í nefndir þingsins, afgreiða það þar, jafnvel að gera það með víðtækari hætti en hér er lagt til eins og ég ræddi í fyrri ræðu minni áðan og gera lög um ráðherraábyrgð betri en þau eru í dag og betri en þau hafa verið fram til þessa — og hefðu kannski bara verið fín ef Páll Pétursson hefði komið sínu máli í gegn. (Gripið fram í.) Það er bara mín afstaða til málsins að Páll hafi verið framsýnn hvað þetta varðar og það hefði verið nær að fylgja leiðbeiningum hans í þessu máli.