139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

staða viðræðna Íslands við ESB.

[15:06]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Ég fagna þessari umræðu og er sammála síðasta ræðumanni um að hún er of stutt, hún er í hálfgerðu skötulíki vegna stutts ræðutíma. Ég bendi jafnframt á að í þingsköpum er gert ráð fyrir svokölluðum lengri utandagskrárumræðum sem mættu jafnvel fara fram með reglulegu millibili um þetta mikilvæga mál, því að það er eitthvað sem þingið þarf að ræða og sem almenningur og við þurfum að fræðast um. Ég held að það væri til bóta ef við hefðum skipulega umræðu um Evrópusambandsaðildina eða umræðurnar með reglulegu millibili svo lengi sem þörf er á, jafnvel á þriggja mánaða fresti ef þörf er á því.

Hreyfingin hefur ekki stefnu í Evrópusambandsmálum. (Gripið fram í.) Við þingmenn Hreyfingarinnar höfum hins vegar persónulega stefnu í þeim málum. Ég styð aðildarviðræður við Evrópusambandið og tel að það eigi svo að leysa úr málinu með lýðræðislegum kosningum. Atkvæðin sem greidd voru á sínum tíma við aðildarviðræðurnar voru vegna annarra tengdra mála sem of langt mál er að fara út í hér.

Að mínu viti er mjög mikilvægt að svona umræða fari fram sem oftast og víðast og verði upplýst og góð. Að hluta til hefur hún verið það hér í dag og ég fagna því.

Hluti af lýðræðislegri niðurstöðu í þessu máli er að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla, eins og fram kemur í tillögu til þingsályktunar um lýðræðisstofu, og að það verði lýðræðisstofa sem stjórni því hvernig sú kosning fer fram. Ég bendi á að svo gæti farið að fyrrverandi hæstv. ráðherra, Björn Bjarnason, yrði dómsmálaráðherra þegar þar að kemur. Málið snýst um trúverðugleika, ekki eingöngu í reynd heldur trúverðugleika í ásýnd. Þetta er mikið deilumál og tilfinningamál. Það skiptir gríðarlega miklu máli að það verði ekki ríkisvaldið sjálft sem stýri atkvæðagreiðslunni um Evrópusambandið þegar þar að kemur.

Ég kem upp til að leggja áherslu á það mál. Gert er ráð fyrir lýðræðisstofu í frumvarpi Hreyfingarinnar um þjóðaratkvæðagreiðslur og ég hvet til þess (Forseti hringir.) að utanríkisráðherra taki undir það til að málið fái enn betri framgang í þinginu.