139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki.

73. mál
[16:45]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það var sérstaklega auglýst eftir því að stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar létu sjá sig í ræðustól um þetta frumvarp (BJJ: Gaman að sjá þig.) og almennt á þinginu. Ég vil láta það eftir hv. þm. Birki Jóni Jónssyni sem er ákaflega fínn og efnilegur þingmaður og bíður mikill frami í þinginu og í landsmálunum. Ég tel rétt að fara að hans bón og hvatningu og lýsi í sjálfu sér yfir hlutfallslegum stuðningi við það mál sem hér er flutt um nýsköpun í atvinnulífinu [Hlátur í þingsal.] og ég held að hljóti að vera hið prýðilegasta og ágætasta mál.

Ég kem hins vegar upp í tilefni af orðaskiptum þeirra hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar og hv. þm. Péturs Blöndals sem ég dái eiginlega enn þá meira en Birki Jón Jónsson enda hefur hann haft tækifæri og áratugi til að sanna ágæti sitt sem Birkir Jón Jónsson hefur ekki enn þá haft en á sem sé eftir að gera, aldrei að vita nema hann fari fram úr Pétri Blöndal í viti á atvinnumálum og viðskiptalífi. Sú þjóð er gæfusöm sem á slíka unga stjórnmálamenn þótt þjóðin hafi kannski ekki verið nógu gæfusöm með hv. þm. Pétur Blöndal sem sinn helsta stjórnmálamann, ekki Péturs Blöndals vegna heldur vegna þess að hún hlýddi ekki Pétri Blöndal. Ég vil biðja ykkur að taka eftir því því að hv. þm. Pétur Blöndal hefur verið með varnaðarorð og má eiga það að allan tímann talaði hann um að menn ættu að spara og leggja fyrir og menn ættu ekki að haga sér eins og vitleysingar og það liggur við að hann hafi sagt eins og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, hinn mikli forni lappi í ræðustólnum, að ekki væri alltaf hægt að gera allt fyrir alla, sem er eitthvert besta mottó sem þingmenn geta haft. Ég bendi hv. þm. Birki Jóni Jónssyni sérstaklega á þetta mottó fyrir framtíðina, ef hann man það, sem t.d. eitthvað í kosningabaráttu fyrir norðan. Það getur verið gott að fara um sveitir og segja að því miður sé ekki alltaf hægt að gera allt fyrir alla vegna þess að það er hinn sári sannleiki sem mætir okkur á hverjum degi í meðalári og í góðum árum, hvað þá í hallæri eins og núna.

Það sem hvatti mig þó helst til að koma upp í stólinn var orðalag hv. þm. Péturs Blöndals, sem ég tel vart honum sæmandi sem hinum mikla fróðleiksmanni og leiðbeinanda þingmanna og þjóðar, þegar hann kom upp og sagði að búið væri að stöðva atvinnufyrirtækin, að þau hefðu verið keyrð í þrot. Það sem maður tekur eftir við þetta orðalag er að það er alveg rétt að atvinnufyrirtækin eru ekki á mikilli hreyfingu og fram undan eru þrot eða þau afstaðin hjá mörgum atvinnufyrirtækjunum. Bíðið nú við! Þessar setningar hafa geranda. Þá er spurningin: Hver er þessi gerandi? Hv. þm. Pétur Blöndal var aðallega að tala um núverandi ríkisstjórn, að hún hefði stöðvað atvinnustarfsemi, hún hefði keyrt eitthvað í þrot. Það er ekki þannig.

Nú skulum við ekki tala eins og menn hafi ekki minni í landinu. Það var auðvitað hrunið sem gerði þetta að verkum, það var hin margfalda kreppa sem enn stendur yfir og við erum ekki laus úr og verðum ekki fyrr en a.m.k. að þessum vetri liðnum. Það er þess vegna sem við erum með þessi fjárlög í höndunum. Það er þess vegna sem fólk er að mótmæla um allt land og mikill órói er í samfélaginu. Það er vegna hrunsins. Og hver var gerandinn í hruninu? Hver ætli það hafi verið? Að sjálfsögðu útrásarvíkingarnir. Að sjálfsögðu menn í atvinnulífinu og viðskiptalífinu, sem Pétur Blöndal reyndar varaði við þó að hann hefði hugmyndalega samstöðu með þeim, og þeir byggðu einkum á og bjuggu til hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins sem Sjálfstæðisflokkurinn náði í gegn þau 18 ár sem hann stjórnaði síðast, hugmyndafræði hinnar villtu frjálshyggju. Ef það eru einhverjir gerendur — að sjálfsögðu fær hv. þm. Pétur Blöndal tækifæri til að svara þessu á eftir — tel ég að þeir séu einkum Sjálfstæðisflokkurinn og þeir stjórnmálamenn sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft í frammi og hugmyndafræðingar sem Sjálfstæðisflokkurinn hlustaði á og hafa flokkinn enn þá í taumi.

Það er alveg rétt og er vandamál að ekki er mikið traust á hlutabréfum eða hlutabréfamarkaði á Íslandi um þessar mundir og skyldi engan furða. Ég held að jafnvel hv. þm. Pétur Blöndal hafi engar smellnar lausnir sem geta endurvakið trúnað eða traust á þann markað. Ég held að eina leiðin til að ná trausti aftur sé sú að byggja atvinnulífið upp og haga viðskiptalífinu þannig að það fari eftir nýjum og siðlegri reglum undir merkjum annarrar hugmyndafræði en hefur verið skráð á gunnfánana síðustu 20 árin.

Ég verð líka að segja í sambandi við orð hv. þm. Péturs Blöndals, sem ég hlusta á í fullkominni alvöru þegar hann ræðir þessi mál, þá efast ég um að það gerist nokkurn tíma aftur að venjulegt fólk eins og ég eða hv. þm. Birkir Jón Jónsson, nú er ég ekki að tala um hv. þm. Pétur Blöndal, kaupi hlutabréf í einhverjum mæli í einstökum fyrirtækjum, nema þá hjá pabba og mömmu eða frænda og frænku eða einhverju þarfafyrirtæki í héraði með einhverjum styrkleika, eða að það spekúleri í hlutabréfamarkaðnum. Ég held að það sé óeðlilegt. Það getur vel verið að Margréti Thatcher hafi fundist þetta sniðugt á sínum tíma en ég held að það sé ekki eðlilegt og ég held að hv. þm. Pétur Blöndal hljóti að fallast á það þegar hann hugsar sig nánar um að þótt venjulegt fólk eigi að hafa aðgang að hlutabréfamarkaði sé langheppilegast fyrir fjölskyldurnar að það gerist í gegnum stóra sjóði þar sem ekki rís sú áhætta sem fylgir einstökum hlutabréfakaupum. Þetta er auðvitað frjálshyggjunni að kenna sem predikaði hvern mann sem sitt einkafyrirtæki, það var þannig, en þetta er líka því að kenna hvað íslenskt samfélag breyttist hratt og hvað þroski okkar var lítill á þeim tíma þegar allir héldu að þeir hefðu höndlað hamingjuna og kapítalisminn mundi halda áfram í einu uppsveiflandi línuriti allt til himna út yfir gröf og dauða sem reyndist hrapallegri misskilningur en jafnvel helstu gagnrýnendur frjálshyggjunnar og hlutabréfahugsjónarinnar létu sér detta í hug á sínum tíma.

Ég held svo að það sé rétt hjá Pétri Blöndal að orðið fjármagnseigendur hefur verið mjög misnotað á síðari tímum og ég skal taka á mig hluta af þeirri sök. Orðið fjármagnseigendur hefur á áratugunum í framhaldi af knálegri stéttabaráttu fyrri tíma og kannski einkum núna á síðastliðnum 5–10 árum verið notað af okkur vinstri mönnum og gagnrýnendum kapítalismans með þá gömlu mynd í huga að fjármagnseigendur séu feitir karlar með pípuhattana sem moka til sín, hvernig var vísan:

safna auð með augun rauð,

er aðra brauðið vantar.

Þetta er auðvitað ekki þannig þó að ýmsir fjármagnseigendur eigi töluvert af peningum og séu ríkir menn og í þeim hópi voru náttúrlega útrásarvíkingarnir margir og enn þá er fámenn en voldug yfirstétt í landinu, ég á við yfirstétt í merkingunni efst í tekjustiganum. Meginhluti fjármagnseigenda er auðvitað ekki það fólk heldur þeir sem geyma milljón hér og milljón þar handa börnunum sínum eða fyrir húsnæði; af einstaklingum er ég að tala um fólk í þokkalegum efnum, sem átti kannski tvær íbúðir og á núna í banka eða átti af því að við erum alltaf að tala í þátíð um venjulegt samfélag, og að auki eru fjármagnseigendur auðvitað hinir sameiginlegu sjóðir okkar, lífeyrissjóðirnir og aðrir slíkir sjóðir sem við eigum saman, og þar með er hægt að kalla alla Íslendinga fjármagnseigendur.

Ég ætla ekki að fara lengra út í þessa sálma. Ég tek undir tal hv. þm. Péturs Blöndals, að vara við því að stilla eigendum fjár í banka upp sem einhverjum andstæðingum fólksins í landinu vegna þess að þeir eru að ýmsu leyti sjálft fólkið í landinu. Eftir er öll umræða um hvernig hagsmunir þessa fólks skarast við þá sem skulda og bíður hún síðari tíma.

Hv. þm. Birkir Jón Jónsson réttir upp blað sem hann hefur litað allt gult af einhverjum ástæðum. Ég hélt að honum þætti vænt um græna litinn eins og mér en við sjáum til hvaða tákngildi sú upprétting hefur í framhaldsumræðum um þetta prýðilega og góða mál hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar, Eyglóar Harðardóttur og fleiri hv. þingmanna hér á þinginu. (BJJ: Styðurðu málið?)