139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

88. mál
[16:39]
Horfa

Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir hvað hann tekur vel í þingsályktunartillöguna og lýsir því að hann sé sammála innihaldi hennar, enda eru forsendur brostnar og um aðlögunarferli að ræða.

Þess skal getið að aðlögunarferlið gengur út á það að þegar Ísland eða einhver þjóð hefur samþykkt aðlögunarferlið í þjóðaratkvæðagreiðslu, á það ríki að vera tilbúið fyrir Evrópusambandið frá degi eitt eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna. Þá á það að vera búið að taka upp allar þær reglur og þau lög sem gilda þar. Það sem sagt var hér í umræðum í dag á milli hæstv. utanríkisráðherra og þingmanna um að það tæki þingið kannski tvö til þrjú ár eftir þjóðaratkvæðagreiðslu að aðlaga landið að lögum og reglugerðum, er því þvættingur. Það á sér nefnilega ekki stað. Ég held að tímabært sé orðið að skoða alvarlega hvað utanríkisráðherra er að fara og hvernig hann getur trekk í trekk haldið öðru fram en að um aðlögun sé að ræða. Enda kemur það fram á bls. 2 í þingsályktunartillögunni að Ísland verði að aðlaga sig að reglum og tilskipunum Evrópusambandsins. Þær telja nú hvorki meira né minna en 99.000 blaðsíður þannig að hér má heldur betur gefa í.

Mig langar að spyrja þingmanninn vegna þess að hann kom inn á aðlögunarferlið eða umsóknarferlið. Í máli hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar kom t.d. fram að hann væri bara að tala við einhverja menn úti í Brussel sem segðu honum að þetta væri umsóknarferli og ekki aðlögunarmál. Þannig að ég spyr þingmanninn: Hver heldur hann að sé ástæðan fyrir því að hæstv. utanríkisráðherra og hv. formaður utanríkismálanefndar taka þessa afstöðu og velja að (Forseti hringir.) tala um að þetta sé umsókn en ekki aðlögun?