139. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2010.

fundarstjórn.

[15:07]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Það er nokkuð síðan ég benti á að fyrirspurn minni hefði verið svarað ranglega og óskaði eftir því að forseti leitaði eftir réttum svörum. Þau hafa ekki borist enn þá. Ég er svo sem búinn að reikna út svarið við spurningunni sem hljóðaði svo, með leyfi frú forseta:

„Hversu há var þessi ríkisábyrgð í krónum á gengi undirskriftardags?“ — Þá er ég að tala um lánið frá Bretlandi upp á 2,4 milljarða punda og lánið frá Hollandi upp á 1,3 milljarða evra. Svarið var 695,7 milljarðar kr. Það er ekki erfitt að svara þessu, enda kemur þetta óbeint fram í svarinu.

Það sem mér þótti verst er að ég spurði hvers vegna ríkisábyrgðin og áfallnar skuldbindingar hefðu ekki verið teknar fram í fjárlagafrumvarpinu. Þá er sagt að ekki hafi verið búið að samþykkja það sem lög. Fjárlögin eiga einmitt að sýna fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar, þar á meðal lagafrumvarp (Forseti hringir.) sem lá fyrir.