139. löggjafarþing — 30. fundur,  17. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:26]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Nú er Icesave-grýlan komin á kreik eina ferðina enn og verið að vitna í forstjóra Össurar, Jón Sigurðsson, um að það hafi verið gríðarlega skaðlegt íslensku efnahagslífi að þetta mál skuli ekki vera leyst. Mér er helst að halda að sá maður hafi verið of mikið erlendis til að fylgjast með þeirri umræðu og þeirri þróun sem hér hefur verið.

Ég vil vitna til fullyrðinga forstjóra Landsvirkjunar sem ítrekað hefur sagt, bæði á fundum með iðnaðarnefnd Alþingis og í nýlegum sjónvarpsþætti, að Icesave-málið væri ekkert að skaða þá og samningaviðræður þeirra um lánsfjármagn. Þeir heyrðu á þetta minnst en þetta væri ekki að þvælast fyrir þeim. (Gripið fram í.) Ég vil líka ræða um það að á fund iðnaðarnefndar hafa ítrekað komið þeir aðilar, af hálfu hins opinbera, sem eru að selja verkefni á erlendum vettvangi, eru að laða til Íslands erlenda fjárfesta. Í máli þeirra kemur fram að það er allt annað sem er ástæðan fyrir því að það er stöðnun í íslensku efnahagslífi og íslensku atvinnulífi. Það er allt annað. Það er stefnuleysi og viljaleysi stjórnvalda til að taka á á þeim vettvangi en hefur ekkert með Icesave-málið að gera (Gripið fram í: Hver sagði það?) — þeir hafa sagt þetta nákvæmlega, hv. þingmaður.

Ég vil vitna í skýrslu sem var gerð fyrir Fjárfestingarstofu af Pricewaterhouse Coopers í Hollandi, skýrsla sem nýlega var birt um samkeppnishæfi okkar og við voru borin saman við Belgíu, Svíþjóð og Möltu. Við fengum falleinkunn í þessari skýrslu, Íslendingar. Og hver var rauði þráðurinn í gegnum þá falleinkunn? Hann var sá að hér væri stjórnmálaleg óvissa, hér væri pólitísk óvissa. Það væri engin stefnumörkun, það vantaði stefnumörkun til lengri tíma. Þetta var falleinkunnin sem við fengum í samanburði við þessi lönd. Þetta er ástæðan fyrir því að stöðnun er í íslensku efnahagslífi og íslensku atvinnulífi.

Það er hægt að nefna dæmi eins og Magma, eins og ECA-verkefnið, eins og orkufrek verkefni á Bakka eða álverið í Helguvík. Hvernig hefur þessi ríkisstjórn hagað sér? Það er þarna sem rót vandans liggur. Hún liggur ekki í Icesave-málinu og við skulum ekki fara að gera þá grýlu lifandi aftur. Það er nóg komið af henni.