139. löggjafarþing — 30. fundur,  17. nóv. 2010.

vextir og verðtrygging o.fl.

206. mál
[15:34]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er vissulega umfangsmikið mál og það varðar tugi og hundruð milljarða lesi menn greinargerðina. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra nánar út í það sem hv. þm. Pétur H. Blöndal var að spyrja út í. Hefur verið framkvæmt áhættumat vegna mögulegrar skaðabótaskyldu sem þetta kann að skapa á hendur ríkissjóði? Hæstv. forseti talaði um að áhættan væri ásættanleg en ég vil fá það upplýst hversu há og hversu mikil sú áhætta er. Við skulum ekki gleyma því að hæstv. ráðherra hefur óskað eftir því að fá í hendur skaðleysisyfirlýsingar frá bönkunum, hann hefur hins vegar ekki fengið þær. Lögmenn sem vinna fyrir kröfuhafa úti í bæ hafa verið með hótanir á hendur skilanefndum og hótað þeim málsóknum undirriti þeir slíkar skaðleysisyfirlýsingar. Svo hafa t.d. fræðimenn eins og Benedikt Bogason bent á það í fyrirlestri að svona löggjöf kunni að kalla á málaferli og hugsanlega skaðabótaskyldu. Við þurfum því að vita hvert umfang hennar er.