139. löggjafarþing — 30. fundur,  17. nóv. 2010.

vextir og verðtrygging o.fl.

206. mál
[15:42]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það eru rúmlega tvö ár frá hruni og enn þá vita tugþúsundir heimila í landinu ekki hvað þau skulda. Það leggur þá skyldu á herðar okkar í þinginu að afgreiða þetta mál fyrir jól til að fólk viti hver staða þess er.

Sami vandi blasir við gagnvart fyrirtækjunum. Ég get skilið þau meðalhófsrök sem hæstv. ráðherra setur fram hvað þau varðar en þá vil ég hvetja ráðherrann til þess að ganga hart fram í því að þeim silagangi sem verið hefur í bankakerfinu við fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækjanna ljúki. Það verði gengið hratt og vel í að leysa úr skuldavanda fyrirtækjanna vegna þess að það er að verða helsti þröskuldurinn í vegi fyrir efnahagsuppbyggingu á Íslandi í dag hve hægt gengur að taka á því og skapa með því skilyrði til aukinnar verðmætasköpunar, fjárfestingar og uppbyggingar í atvinnulífinu hér.