139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

Landsvirkjun.

188. mál
[12:27]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér að mínu mati afskaplega merkilegt mál. Sem oft áður getum við þakkað þörf frumvörp Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu og þátttöku okkar í því. Það var reyndar rætt um það á sínum tíma hvort inngangan í Evrópska efnahagssvæðið bryti ekki fullveldi Íslands, var mikil umræða um það, en þetta mál er angi af því. Það er nefnilega vísað í það aftur og aftur í frumvarpinu að fram hafi komið athugasemd frá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) 8. júlí 2009, eftir að hún hafði rannsakað fyrirkomulag eigendaábyrgðar Landsvirkjunar og Orkuveitu. Ríkisstjórn sem í sjálfu sér er ekkert voðalega hlynnt því að fara inn í hlutafélagavæðingu á ríkisfyrirtækjum eða þjónustufyrirtækjum, eða hvað það nú er kallað, göfugum fyrirtækjum eða hvað menn vilja kalla það, er allt í einu komin með frumvarp sem að mínu mati leiðir Landsvirkjun inn í einkahlutafélagaformið, eiginlega með einum eiganda.

Þetta leiðir líka hugann að því að ef við göngum inn í Evrópusambandið, eins og hæstv. fjármálaráðherra vill — hann hefur greitt atkvæði með því að við sækjum um aðild að Evrópusambandinu, sú aðildarbeiðni er óskilyrt og eru menn í fullum gangi að laga Ísland að þeim reglum — verða náttúrlega að koma fleiri boð og bönn frá Evrópusambandinu til Íslands um að gera hitt og þetta.

Þetta var um tilurð frumvarpsins sem er þá skipun að utan um að minnka þessa ábyrgð.

Síðan er það fyrirkomulagið á þessu eignarformi. Ég benti á það á sínum tíma, þegar þetta var gert að sameignarfélagi, sem var náttúrlega alveg fáránlegt — sameignarfélag með sjálfum sér þegar ríkið á báða hlutina í félaginu, það er kallað sameignarfélag. Það er svona svipað eins og ég og ég ættum sameignarfélag og við báðir, ég og ég, tækjum ákvarðanir. Þetta er gert enn furðulegra með því að taka upp einhvers konar félag sem er sameignarfélag en samt ábyrgðarlaust. Það er einmitt einkenni sameignarfélaga að báðir eigendur, í þessu tilfelli ríkið og ríkið, bera ótakmarkaða ábyrgð á því. Nú er búið að takmarka ábyrgðina og að mínu mati er þetta skrýtna félagaform farið að nálgast það að vera einkahlutafélag í eigu eins aðila, þ.e. ríkisins.

Ég gat líka um það áðan að vald ráðherra væri að ákveða nýjar lántökur sem fyrirtækið réðist í, að það fengi ríkisábyrgð. Hingað til hefur það verið þannig, og ég man ekki til þess að því hafi verið breytt, að lántökur Landsvirkjunar, t.d. vegna Kárahnjúkavirkjunar þar sem þær voru gífurlegar, eru ákveðnar á Alþingi. Það var sem sagt ekki ákvörðun ráðherra eða framkvæmdarvalds að gangast í skuldbindingu fyrir ríkið, enda stendur í 40. gr. stjórnarskrárinnar, með leyfi frú forseta:

„Ekki má heldur taka lán, er skuldbindi ríkið, né selja eða með öðru móti láta af hendi neina af fasteignum landsins né afnotarétt þeirra nema samkvæmt lagaheimild.“

Það hefur hingað til verið ákvörðun Alþingis að veita ríkisábyrgð en nú virðist mér að það sé komið inn í valdsvið framkvæmdarvaldsins, hæstv. ráðherra. Ég mun velta því upp í nefndinni hvort þetta standist ákvæði stjórnarskrárinnar, að ekki megi veita ábyrgð eða skuldbinda ríkið nema samkvæmt lagaheimild.

Að mínu mati er frumvarpið nokkuð jákvætt. Ég vil hafa þátttöku ríkisins sem minnsta í atvinnulífinu. Mér sýnist að þarna sé komin upp sú staða að þetta fyrirtæki, Landsvirkjun, sé orðið einkaréttarlegs eðlis. Þá er eiginlega bara næsta skref að selja það, frú forseti. Ég legg til að hæstv. ráðherra skoði þann möguleika að skipta fyrirtækinu upp í þrjá parta, Austurlandsvirkjun með höfuðstöðvar á Egilsstöðum, Þjórsárvirkjanir með höfuðstöðvum á Hellu og síðan restina með höfuðstöðvum á Selfossi. Þetta mundi vera svona landsbyggðarhugsun. Ég minni á að Orkuveita Suðurnesja er með höfuðstöðvar á Suðurnesjum en ekki í Reykjavík eins og Landsvirkjun.

Síðan mætti leigja þessum fyrirtækjum orkuréttindi ríkisins, eða þjóðarinnar öllu heldur, til 30 eða 40 ára og allar vélar og öll tæki með, og síðan að selja. Ég hugsa að gott verð fengist fyrir það, frú forseti, sem mundi laga stöðu ríkissjóðs í þessari kreppu. Þá væri kannski hægt að fresta eitthvað af þessum skattahækkunum sem ríkisstjórnin hefur farið í. (Gripið fram í.) Þetta er mjög mikilvægt skref í þá átt að selja Landsvirkjun að hætta að veita ríkisábyrgðir í stórum stíl, í tilefni af þessu frammíkalli. Hingað til hefur ríkið alfarið borið ábyrgð á þessu barni sínu, þessari eign sinni, en hér er verið að takmarka þá ábyrgð við þær lánveitingar sem fjármálaráðherra tekur beint ákvörðun um, hann fer þá ekki að taka ábyrgð á öllu heila batteríinu sem Landsvirkjun er. Mér sýnist að þetta sé fyrsta skref í þá átt og mér líst nokkuð vel á það, frú forseti, að þetta sé gert. Ekki þykir mér verra að margt gott kemur frá Evrópusambandinu. Það á við um þetta.

Við ræðum svo hér á eftir um ríkisábyrgðir. Það er mjög merkilegt, það er allt að því merkilegra en þetta frumvarp, vegna þess að það mun þýða að enginn mun óska eftir ríkisábyrgð, þar sem það á að borga jafnmikið fyrir ríkisábyrgðina eins og að meðaltali fengist á markaði. Þá er það náttúrlega umsvifaminna að fá bara lán á markaði með markaðsvöxtum, en ekki að vera að þvælast með einhverja beiðni um ríkisábyrgð þar sem ráðherra getur farið að stjórna og skipta sér af rekstrinum.