139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

Landsvirkjun.

188. mál
[12:42]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Margt gott kemur frá Evrópusambandinu, sagði hv. þm. Pétur H. Blöndal. Þó að sá sem hér stendur líti ekki svo á að Evrópusambandið sé patentlausn má út af fyrir sig taka undir orð þessa hv. þingmanns um það mál sem hér er fyrir. (PHB: Já?) Það er til þess fallið auðvitað að skýra og skerpa ábyrgðarskiptinguna milli ríkisins og fyrirtækja þess. Það er mikilvægt, og sömuleiðis að verðleggja hana rétt þannig að skattgreiðendur fái eðlilegar tekjur af þeim ábyrgðum sem veittar eru í nafni þeirra.

Þó hlýtur maður fyrst og fremst að binda vonir við það sem hér hefur verið nefnt í umræðunni, að þetta breytta fyrirkomulag leiði til þess að það dragi úr slíkum ábyrgðum, einkum auðvitað í áhættufjárfestingum á borð við þær sem farið er í í orkuiðnaðinum. Það voru líka áhöld um það, a.m.k. á tímabilum, hvort Landsvirkjun hefði ekki haft aðgang að fjármagni á nær því sömu kjörum og íslenska ríkið, eins og reynslan sýndi þegar ríkisbankarnir voru á sínum tíma einkavæddir og héldu að meira eða minna leyti þeim lánskjörum sem ríkið hafði. Þeir voru eftir sem áður lykilstofnanir í þessu samfélagi og of stórir til að bregðast, „too big to fail“ eins og kallað er á ensku.

Við höfum með hinum opinberu orkufyrirtækjum niðurgreitt með óbeinum hætti fjárfestingar í tilteknum atvinnugeirum. Það kann á stundum að hafa leitt til offjárfestingar, ofþenslu og hallað á samkeppnisstöðu annarra greina. Þess vegna er jákvætt að slíkar niðurgreiðslur séu þá a.m.k. skýrt skilgreindar og að greitt sé sannvirði fyrir þann opinbera stuðning. Það sem verður auðvitað meðal verkefna hjá okkur í efnahags- og skattanefnd er að fara yfir það með hvaða hætti menn verðleggja ábyrgðina og hvernig hægt er að gera það sem réttast og best þannig að hér sé um raunverulega leiðréttingu að ræða og að skattgreiðendur fái sannvirði fyrir þá ábyrgð sem þeir veita.