139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

Landsvirkjun.

188. mál
[13:45]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mikið til í því sem fram kemur hjá hv. þm. Helga Hjörvar að einstakir flokkar eins og stóriðjustarfsemi gæti verið skynsamlegt að hafa í sérstökum félögum. Af því að hv. þingmaður nefndi Orkuveitu Reykjavíkur þá kom mér á óvart að sjá hver staða fyrirtækisins var orðin. Í minni tíð var gerð gangskör í að reyna að taka út allt það sem átti ekki við í þessu hefðbundna, sem sagt að væri fyrir utan hefðbundið svið fyrirtækisins, og koma í veg fyrir, t.d. að grunnnet Símans sem áætlanir voru uppi um hjá vinstri meiri hlutanum að kaupa á 23–24 milljarða. Það var komið í veg fyrir að það væri gert og sömuleiðis að menn færu ekki í sumarbústaðaframkvæmdir, jafnfáránlegt og það nú er. Sömuleiðis var settur á fót sérstakur hópur sem skoðaði hagræðingu hjá fyrirtækinu og framtíðarmúsík. Eftir að ég hætti hef ég lítillega fengið að líta á það. Menn voru að skoða þessa hluti eins og hv. þingmaður ræðir með það að markmiði að takmarka ábyrgð skattgreiðenda.

Við sjáum það núna, ef það hefur farið fram hjá okkur, að það er jafnmikilvægt á þessum sviðum og annars staðar. Það sem kom fyrir hjá Íbúðalánasjóði mun lenda á skattgreiðendum með einum eða öðrum hætti, m.a. einkabönkunum sem við vorum að einkavæða til þess að koma í veg fyrir að skattgreiðendur bæru ábyrgð á áföllum þeirra, en það hefur svo sannarlega komið niður á skattgreiðendum.

Ég held að augljóslega hafi menn hjá Orkuveitunni og kannski fleiri orkufyrirtækjum ekki verið nægilega vakandi hvað þetta varðar. Það er eitt sem ég held að við ættum að skoða og ræða og gera það helst núna í þessari umferð. (Forseti hringir.) Ég fagna þeim orðum sem komu fram hjá hv. þm. Helga Hjörvar.