139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[15:55]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir ræðuna en hún einkenndist af uppgjöf og vonleysi, hugmyndafátækt og því að reyna að kreista meira út úr sítrónunni sem þegar er orðin uppþornuð.

Ég tel að forsendubresturinn hafi verið atvinnumissirinn og tekjumissirinn. Menn misstu yfirvinnuna, menn misstu atvinnuna, menn misstu hitt starfið sitt og launin voru lækkuð hjá mjög mörgum. Tekjumissirinn var forsendubresturinn. Ríkisstjórnin hefur ekkert gert til að auka atvinnu. Frumvarpið sem hér liggur fyrir felst í því að reyna að minnka atvinnu, með því að skattleggja meira fjármagnstekjur, með því að skattleggja meira hagnað fyrirtækja og reyna að fá fólk til að fjárfesta ekki í hlutabréfum svo það skapist örugglega ekki atvinna. Svo er ríkisstjórnin á móti öllu því sem nefnt hefur verið hérna, að selja eignir ríkisins og ná t.d. í skatt á séreignarsparnaðinn, þetta er eign sem ríkið á og getur náð í hvenær sem er og sett inn í ríkissjóð. Ríkisstjórnin getur í staðinn lækkað alla skatta sem hún hefur lagt á síðustu tvö árin. Það mætti fylla sítrónuna aftur af safa þannig að eftir eitt eða tvö ár gæti atvinnulífið borgað þá skatta sem ríkið þarf.

Það er líka hægt að selja Landsvirkjun. Ég er búinn að benda á það. Það mundi borga mestallar skuldir ríkisins sem þörf er á að laga. Á þetta er ekki horft. Svo er verið að skera niður og ég er í sjálfu sér ánægður með að menn skuli lækka útgjöld ríkissjóðs í þessari kreppu, en hvað gerist með fólkið sem þarf að segja upp? Hvað gerðist með þessa 65 sem var sagt upp hjá Orkuveitunni? Hvað gerist með þessa 170 sem þarf að segja upp hjá Landspítalanum? Þeir verða atvinnulausir eða fara til útlanda. Það eru engin atvinnutækifæri í landinu. Ríkisstjórnin hefur unnið þannig og ég spyr hv. þingmann: (Forseti hringir.) Vill hann þetta?